Erlent

Mál konunnar sem missti fóstur í skotárás fellt niður

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Marshae Jones var ófrísk þegar hún var skotin í magann í desember. Ákærudómstóll taldi hana hafa efnt til rifrildis og gaf út ákæru vegna manndráps.
Marshae Jones var ófrísk þegar hún var skotin í magann í desember. Ákærudómstóll taldi hana hafa efnt til rifrildis og gaf út ákæru vegna manndráps. Vísir/EPA
Saksóknari í Alabama í Bandaríkjunum hefur ákveðið að fella niður mál á hendur konu sem ákærð hafði verið fyrir manndráp eftir að hún var skotin í magann og missti þannig fóstur.

Ákærudómstóll hafði áður gefið út ákæru á hendur hinni 28 ára gömlu Marshae Jones. Var hún talin bera ábyrgð á fósturmissi sínum með því að valda rifrildi sem lauk með því að önnur kona skaut hana í magann. Dómstóllinn taldi konuna sem skaut Jones hafa hleypt af í sjálfsvörn. The Guardian greinir frá.

Á mánudag lögðu verjendur Jones fram gögn þar sem því var haldið fram að ríkið styddist við „gallaðar og öfugsnúnar röksemdarfærslur“ sem „hunsi bæði lög og almenna skynsemi“ í málinu gegn Jones. Sú hugmynd að Jones hafi viljandi valdið dauða fósturs síns með því að hefja slagsmál sé verulega langsótt.

Alabamaríki samþykkti stjórnarskrárbreytingu í fyrra sem gaf fóstrum fullan lagalegan rétt og vernd á við manneskju. Í vor samþykktu ríkisþingmenn þar svo ströngustu þungunarrofslög í Bandaríkjunum á grunni stjórnarskrárákvæðisins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×