Íslenski boltinn

Breiðablik kallar Ólaf Íshólm til baka úr láni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks.
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks. vísir/bára
Breiðablik hefur kallað markvörðinn Ólaf Íshólm Ólafsson til baka úr láni frá Fram.

Gunnleifur Gunnleifsson fór meiddur af velli þegar Breiðablik tapaði fyrir KR, 2-0, í Pepsi Max-deild karla á mánudaginn. Hlynur Örn Hlöðversson kom inn á í stað Gunnleifs og gerði sig sekan um slæm mistök í öðru marki KR-inga.

Í samtali við Vísi á þriðjudaginn bjóst Gunnleifur við að vera orðinn klár fyrir leikinn gegn HK í kvöld.

Blikar hafa samt sem áður kallað Ólaf Íshólm til baka úr láni. Hann hefur leikið alla tíu leiki Fram í Inkasso-deildinni í sumar.

Ólafur Íshólm kom til Breiðabliks frá Fylki 2017. Hann lék einn leik með liðinu í Pepsi-deildinni í fyrra.

Ólafur Íshólm er kominn með leikheimild með Breiðabliki og gæti því staðið á milli stanganna gegn HK í kvöld ef Gunnleifur er enn meiddur.

Leikur Breiðabliks og HK hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×