Íslenski boltinn

Ágúst: Hlynur átti að verja þetta

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Ágúst var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna gegn KR og sagði þá ekki hafa átt neitt skilið út úr leiknum.
Ágúst var ekki sáttur með frammistöðu sinna manna gegn KR og sagði þá ekki hafa átt neitt skilið út úr leiknum. vísir/bára
Ágúst Þór Gylfason þjálfari Breiðabliks var daufur í dálkinn eftir tap sinna manna fyrir KR í kvöld. Eftir tapið sitja Blikar í 2. sæti, fjórum stigum á eftir KR sem sitja í toppsætinu. Hann sagði að leikurinn í kvöld hafi heilt yfir verið slakur.

„Mér fannst í rauninni leikurinn heilt yfir slakur hjá báðum liðum. Það var ekki að virka það sem liðin lögðu upp með og það var ekki að sjá á þessum leik að þetta væru toppliðin í deildinni að spila hérna. Því miður vorum við lélegri en KR og þeir verðskulduðu sigurinn.“

Hann sagði það ekki skipta öllu þó vantað hafi upp á gæðin í leiknum en það var mikið búið að tala leikinn upp og að þetta væri stórleikur mótsins hingað til.

„Það skipti kannski ekki öllu í kvöld, við töpum þessum leik og KR vann. Það er það sem situr eftir en hvernig leikurinn var, virðing hjá báðum liðum og auðvitað á frammistaðan að vera betri en það voru samt móment í leiknum hjá okkur,“ sagði Ágúst.

„Thomas Mikkelsen fær tvö dauðafæri, skallafæri sem ég hefði viljað sjá í markinu og það hefði kannski breytt leiknum en við áttum ekkert skilið hérna.“

Ágúst gat ekki tjáð sig um meiðsli Gunnleifs Gunnleifssonar sem fór meiddur af velli eftir aðeins ellefu mínútur í kvöld. Hann vissi ekki alveg stöðuna á honum en sagði þó að hann myndi verða klár á móti HK eftir viku. Ágúst sagði að Hlynur Örn Hlöðversson, sem kom inn á fyrir Gunnleif, hefði klárlega átt að gera betur í öðru marki KR sem Óskar Örn Hauksson skoraði.

„Klárlega, við verðum að vera heiðarlegir með það að hann átti að gera betur þar en að öðru leyti stóð hann sig vel. Hann átti að verja þetta en svona hlutir gerast.“

Ágúst sagði að lokum að hann væri sáttur með sumarið hingað til en frammistaðan í kvöld væru mikil vonbrigði.

Hlynur Örn gerði mistök í öðru marki KR.vísir/bára

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×