Íslenski boltinn

Gunnleifur: Er fíkill í fótbolta og dettur ekki til hugar að missa af næsta leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gunnleifur fyrir leik í gær.
Gunnleifur fyrir leik í gær. vísir/bára
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, varð að fara af velli snemma leiks í toppslagnum gegn KR í gær þar sem hann var meiddur í baki.

„Það klemmdist taug í bakinu í upphitun. Það var allt nuddað og hitað fyrir leik þannig að ég var tilbúinn. Ég hef oft spilað í gegnum sársauka áður og ekkert nýtt fyrir mig að glíma við bakmeiðsli. Í fyrsta „aksjóni“ fór ég aftur á móti aftur í bakinu. Því miður,“ segir Gunnleifur en hann fór eldsnemma í morgun í meðferð hjá sjúkraþjálfara og hnykkjara.

„Er bakið fór þá fann ég að ég gat ekki tekið snöggar hreyfingar. Ég var að vonast til þess að þetta myndi lagast en það gerði það ekki,“ segir markvörðurinn en hefði hann varið skot Kristins Jónssonar á 8. mínútu ef hann hefði verið í lagi?

„Það er 100 prósent. Ég sá samt þarna að ég yrði að fara af velli. Fá ferskari mann inn. Það var hundleiðinlegt. Ég hef oft getað komið mér í gegnum óþægindi án þess að það bitni á mínum leik en þarna gekk það ekki því miður.“

Gunnleifur hefur lengi glímt við bakmeiðsli en náð að hafa fína stjórn á þeim með því að hugsa vel um sig.

„Ég hef verið að glíma við bakmeiðsli í 15 ár. Ég hef átt það til að læsast í bakinu. Ég er vanur svona bakveseni en það var vont að það skildi gerast á þessum tímapunkti í gær. Ég er alltaf í meðferð og kann að vinna með þetta.“

Næsti leikur Blika er gegn uppeldisfélagi Gunnleifs, HK, næsta sunnudag og reynsluboltinn ætlar ekki að missa af honum.

„Það kemur ekki til greina. Ég er fíkill í fótbolta og vil aldrei missa af leik. Ekki einu sinni á undirbúningstímabilinu. Hvað þá gegn HK í merkilegum leik þar sem ég vil heiðra minningu vinar míns Bjarka Más Sigvaldasonar,“ segir Gunnleifur en eins og áður segir vaknaði hann á undan flestum landsmönnum til þess að fara í meðferð. Fótboltinn er hans líf og yndi.

„Ef ég er ekki að spila fótbolta er ég að hugsa um hann eða tala um hann. Það ætti eiginlega að titla mig sem markmann frekar en mann,“ sagði Gunnleifur léttur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×