Íslenski boltinn

„Við Íslendingar töpum ekki neinum efnilegum leikmönnum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Auk þess að vera yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ er Arnar Þór Viðarsson þjálfari U-21 árs liðs karla. Hér sést hann ásamt aðstoðarmanni sínum með U-21 árs liðið, Eiði Smára Guðjohnsen.
Auk þess að vera yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ er Arnar Þór Viðarsson þjálfari U-21 árs liðs karla. Hér sést hann ásamt aðstoðarmanni sínum með U-21 árs liðið, Eiði Smára Guðjohnsen. vísir/vilhelm
Arnar Þór Viðarsson, nýr yfirmaður knattspyrnusviðs hjá KSÍ, hefur haft í nógu að snúast í sumar.

Hann hefur fylgst með öllum helstu mótum yngri flokka í sumar og var að sjálfsögðu mættur norður á Akureyri á N1-mótið. Guðjón Guðmundsson tók púlsinn á Arnari.

„Ég reyni að mæta á öll mót og er búinn að fara tvisvar til Vestmannaeyja í sumar og á Akranes. Maður verður að fylgjast með þessum yngstu, það er framtíðin hjá okkur. Ef við erum ekki dugleg að leggja grunninn gerist ekki neitt,“ sagði Arnar við Gaupa.

„Grasrótin er mikilvægust hjá okkur og hefur skilað öllum árangrinum sem við höfum náð og hefur gert alla tíð.“

Arnar segir að umhverfið í barna- og unglingastarfinu í íslenskum fótbolta sé öðruvísi en það er erlendis.

„Við Íslendingar töpum ekki neinum efnilegum leikmönnum. Allir fá að vera með. Hérna eru stærstu félögin með 10-11 lið. Það þýðir að krakkar sem eru ekkert rosalega áhugasamir um fótbolta 7-9 ára en fá mikinn áhuga kannski um 11-12 ára eiga enn möguleika á að ná langt,“ sagði Arnar.

„Hérna spila allir við jafningja, hvort sem það er í liði eitt eða ellefu. Hér gera allir sitt besta og allir gefa allt af sér.“

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×