Erlent

Tugir fórust í rútuslysi á Indlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Barn og kona eru sögð á meðal þeirra sem fórust þegar rútan steyptist fram af hraðbrautinni.
Barn og kona eru sögð á meðal þeirra sem fórust þegar rútan steyptist fram af hraðbrautinni. Vísir/EPA
Að minnsta kosti 29 manns létust þegar rúta sem þeir voru farþegar í lenti utan vegar á norðanverðu Indlandi í dag. Talið er að ökumaður rútunnar hafi sofnað undir stýri og misst stjórn á henni. Rútan steyptist fram af hraðbrautinni og hafnaði í ræsi fyrir neðan.

Heimamenn eru sagðir hafa þust á slysstað og náð að bjarga tuttugu slösuðum farþegum úr flakinu. Um fimmtíu manns voru í rútunni sem var á leið frá Lucknow, höfuðborg Uttar Pradesh-ríkis, til Delí. Slysið átti sér stað á Yamuna-hraðbrautinni nærri borginni Agra sem er lengsta sex akreina hraðbraut Indlands, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Bílslys eru tíð á Indlandi og er ástæðan oft lélegt viðhald á bílum og vegum auk ökumannsmistaka. Um 900 manns hafa farist á Yamuna-hraðbrautinni frá því að hún var opnuð árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×