Íslenski boltinn

Vigdís var enn forseti Íslands þegar KR vann síðast átta deildarleiki í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Örn Hauksson fer fyrir toppliði KR í sumar.
Óskar Örn Hauksson fer fyrir toppliði KR í sumar. vísir/bára
KR-liðið vann áttunda deildarleikinn sinn í röð í Pepsi Max deild karla út í Vestmannaeyjum um helgina og Vesturbæjarliðið er nú komið með sjö stiga forskot á toppnum. Það þarf að fara langt aftur til að finna aðra eins sigurgöngu hjá KR.

KR-ingar eru nefnilega á lengstu sigurgöngu sinni í efstu deild í 23 ár eða síðan sumarið 1996 þegar liðið blómstraði undir stjórn Lúkasar Kostic.

KR vann átta leiki í röð í fyrri umferðinni sumarið 1996 en áttundi sigurinn í röð kom í toppslag á móti ÍA á KR-vellinum. Ríkharður Daðason skoraði eina mark leiksins.

Guðmundur Benediktsson fór mikinn í þessari sigurgöngu KR í fyrri umferðinni 1996 og var með 7 mörk og 5 stoðsendingar í þessum átta sigurleikjum í röð.

Guðmundur meiddist á hné í þessum áttunda sigurleik KR í röð. Hann missti mikið úr og KR-liðið sá á endanum eftir Íslandsmeistaratitlinum til Skagamanna eftir hreinan úrslitaleik liðanna í lokaumferðinni.

Vigdís Finnbogadóttir forseti í ljúfum dansi á Þorrablóti í London 20. febrúar 1982. Fréttablaðið/GVA
Vigdís Finnbogadóttir var þarna enn forseti Íslands en Ólafur Ragnar Grímsson var settur í embætti 1. ágúst 1996. Ólafur Ragnar var kjörinn forseti með 41,4 prósent atkvæðum 29. júní 1996.

KR-ingar hafa aldrei unnið níu deildarleiki í röð í nútíma fótbolta eða síðan að fjölgað var í tíu lið í deildinni árið 1977. KR-liðið á því metið eitt takist liðinu að vinna Stjörnuna í næsta leik sínum.

Hér fyrir neðan má sjá listann yfir lengstu sigurgöngur KR-liðsins í deildinni undanfarin fjörutíu ár.

Lengstu sigurgöngur KR í nútíma fótbolta (1977-2019):

8 - 1996 (Lúkas Kostic þjálfaði liðið)

8 - 2019 (Rúnar Kristinsson)

7 - 1998 (Atli Eðvaldsson)

7 - 1999 (Atli Eðvaldsson)

7 - 2013 (Rúnar Kristinsson)

6 - 2009 (Logi Ólafsson)

6 - 2010 (Rúnar Kristinsson)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×