Enski boltinn

Markmenn í ensku úrvalsdeildinni þurfa ekki að óttast VAR

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stuðningsmenn enskra úrvalsdeildaliða þurfa ekki að óttast þessi skilaboð í vetur
Stuðningsmenn enskra úrvalsdeildaliða þurfa ekki að óttast þessi skilaboð í vetur vísir/getty

Myndbandsdómgæslan í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili mun ekki hafa heimild til þess að dæma á markmenn fyrir að stíga af marklínunni í vítaspyrnum.

Riðlakeppni HM kvenna í fótbolta klárast í dag en þrisvar sinnum hafa víti verið endurtekin á mótinu til þessa eftir að myndbandsdómarar dæmdu að markmenn hefðu farið af marklínunni áður en spyrnan var tekin.

Í breytingunum sem gerðar voru á knattspyrnulögunum nýlega og tóku gildi 1. júní var meðal annars sett sú regla að þegar vítaspyrna er tekin verði markmaður að hafa að minnsta kosti annan fótinn á marklínunni, eða ef markmaður er hoppandi þegar spyrnan er tekin þá þurfi annar fóturinn að vera samsíða marklínunni.

Þessi regla hefur verið tekin mjög alvarlega á HM kvenna í Frakklandi og síðast í gær var markvörður Skota fyrir barðinu á þessari reglu. Seint í leik Skota og Argentínu fékk Argentína vítaspyrnu í stöðunni 3-2 fyrir Skota. Lee Alexander varði spyrnuna frá Florencia Bonsegundo en var dæmd brotleg. Bonsegundo skoraði í annarri tilraun, leiknum lauk með 3-3 jafntefli og bæði lið því líklega úr leik í keppninni, í það minnsta eru Skotar á heimleið.

Þessi harða dómgæsla hefur verið harðlega gagnrýnd.

„Ef markmaðurinn þarf að standa á línunni og getur ekki staðið á bakvið hana, þá getum við næst bara sagst ætla að binda hendur fyrir aftan bak,“ sagði sérfræðingur BBC Pat Nevin.

„Það hefur aldrei verið auðveldara í sögu fótboltans að skora úr vítaspyrnu.“

Yfirvöld dómgæslumála á Englandi (e. Professional Game Match Officials Board) ætla ekki að láta myndbandsdómarana dæma um þessa reglu á komandi leiktíð, en myndbandsdómgæsla verður notuð í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta skipti næsta vetur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.