Erlent

Bruni í eld­spýtu­verk­smiðju banar öllum innan­húss

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fórnarlömbin voru læst inni í verksmiðjunni og brunnu því lifandi.
Fórnarlömbin voru læst inni í verksmiðjunni og brunnu því lifandi. Tribun-Medan

Minnst þrjátíu eru látnir, þar á meðal þrjú börn, eftir að eldur braust út í húsi sem var notað sem eldspýtuverksmiðja í Norður-Súmötru héraðinu í Indónesíu. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Sky. Indónesíska fréttastofan Tribun-Medan greindi frá því að 25 fullorðnir hafi látist og fimm börn.

Irwan Syahri, talsmaður hamfarastofnunar á Langkap svæði sagði að mörg fórnarlambanna hafi verið svo brennd að ekki væri hægt að bera kennsl á þau.

Talsmaður lögreglunnar í Norður-Súmötru  sagði að eldurinn hafi brotist út um miðjan daginn og verið sé að rannsaka tildrög hans.

Sjónvarpsupptaka sýndi húsið, sem brunnið var til kaldra kola, og var það staðsett í íbúðahverfi. Gólfið var þakið bognuðum járnplötum og bárujárnsþakið var þakið sóti.

Á myndbandinu sést einn maður í öngum sínum reyna að slökkva eldinn með því að fylla stóra fötu af vatni úr drullupolli á götunni.

Faisal Riza, eiginmaður Marlinu sem dó í eldinum, sagði að starfsmenn þar hafi allir verið konur og að sumar þeirra hafi tekið börnin sín með sér í vinnuna.

„Ég var að labba til mosku til banastunda þegar ég heyrði að verksmiðjan, sem var í húsasundi bara 200 metrum frá heimili mínu, væri í ljósum logum,“ sagði hann.

„Ég hljóp til að bjarga henni en það var of seint. Þegar ég kom þangað var verksmiðjan brunnin til grunna.“

Hann sagði að dyrnar á framhlið hússins væru iðulega læstar og að eldurinn hafi brotist út innst inni í byggingunni.

Tribun-Medan greindi frá því að dyrnar hafi verið læstar utan frá.

Líkin höfðu hrannast upp við útidyrnar vegna þess að fórnarlömbin höfðu reynt að komast út, bætti hann við.

Eigandi hússins, sem er eldri kona, sagði í samtali við sjónvarpsstöðina Metro að hún hafi leigt húsnæðið út til viðskiptamanns sem væri frá höfuðborgarsvæðinu, Medan, síðustu fjögur árin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.