Erlent

Trump frestar brottvísunum og gefur tveggja vikna frest til að leysa vandann

Andri Eysteinsson skrifar
Trump hefur gefið löggjafanum tveggja vikna frest til að leysa vandann.
Trump hefur gefið löggjafanum tveggja vikna frest til að leysa vandann. AP
Bandaríkjaforseti Donald Trump hefur ákveðið að fresta brottvísunararátaki sem hann hugðist koma af stað með það að markmiði að fækka ólöglegum innflytjendum innan landamæra Bandaríkjanna.

Forsetinn hefur ákveðið að löggjafinn hafi nú tveggja vikna frest til þess að bjóða upp á lausn við vandanum sem fylgir landamærunum við Mexíkó í suðri. Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Nancy Pelosi hafði á föstudaginn beðið forsetann um að endurskoða ákvörðun sína og hætta við aðgerðir.

AP hefur það eftir þremur ónafngreindum embættismönnum að ákvörðun Trump um að hætta við hafi ekki eingöngu verið af greiða við Pelosi og Demókrata heldur hafi ekki verið unnt að tryggja öryggi landamæravarða í aðgerðunum þar sem að mikið af upplýsingum um þær hafði verið gerðar opinberar.

Forsetinn skrifaði á Twitter síðu sína í dag að hann hefði frestað átakinu að beiðni Demókrataflokksins. Þá sagði hann einnig að ef ekki fyndist lausn innan tveggja vikna hefðist brottflutningur tafarlaust.

Aðgerðirnar höfðu vakið mikla reiði innan Bandaríkjanna en áætlað hafði verið að þær myndu hefjast á morgun, sunnudag og með þeim myndi innflytjendum, fjölskyldur meðtaldar, verið gert að yfirgefa landið tafarlaust.

Forsetinn greindi fyrst frá fyrirætlunum sínum með tísti í ikunni, þar sagði hann að aðgerðirnar væru yfirvofandi og að milljónir ólöglegra innflytjenda yrðu sendir burt.

Forsetinn og þingforsetinn Pelosi ræddust við símleiðis í gær og varði samtal þeirra að sögn í tólf mínútur, samkvæmt heimildum AP bað Pelosi Trump þar um að hætta við aðgerðirnar og kvaðst hann munu íhuga málið.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×