Erlent

Telja að mannránið hafi verið sviðsett til að hylma yfir slóð morðingja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október í fyrra.
Ekkert hefur spurst til Anne-Elisabethar Hagen síðan í október í fyrra. Norska lögreglan
Lögregla í Noregi telur nú að Anne Elisabeth Hagen, ein ríkasta kona Noregs sem hvarf af heimili sínu í október í fyrra, hafi verið myrt. Lögregla gengur þannig ekki lengur út frá því að Anne Elisabeth hafi verið rænt gegn lausnargjaldi heldur hafi mannránið verið sett á svið. Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglu í Lillestrøm í dag.

Tommy Brøske yfirmaður rannsóknardeildar hjá norsku lögreglunni sagði að ekki sé hægt að útiloka alveg að um mannrán sé að ræða. Ýmislegt bendi þó til þess að mannránið hafi verið sett á svið af meintum morðingja eða morðingjum þannig að lögregla ætti erfiðara með að hafa hendur í hári þeirra.

„Við efumst um að þetta sé mannrán, frekar hafi verið leitast við að skapa grun um að þannig hafi verið í pottinn búið,“ sagði Brøske.

Því hafi verið horfið frá hinni upphaflegu tilgátu um að Anne Elisabeth hafi verið rænt. Viðsnúningurinn sé m.a. byggður á því hversu langur tími hafi liðið frá því að Anne Elisabeth hvarf af heimili sínu í lok október í fyrra. Þá hafi ekki fundist lífsmark með Anne Elisabeth þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir fjölskyldu hennar, auk þess sem ekkert hafi heyrst frá hinum meintu ræningjum síðustu mánuði.

Einnig sé litið til þess að ræningjarnir, sem kröfðust milljóna í lausnargjald í rafmyntinni Monero, hafi notast við óheppilegan samskiptamáta og sýnt af sér merkilega litla viðleitni til að fá peninginn greiddan.

Brøske sagði nær ekkert benda til þess að Anne Elisabeth væri enn á lífi. Hann vildi ekki tjá sig um það hvort einhverjir væru grunaðir um aðild að málinu.

Ekkert hefur spurst til Anne Elisabeth síðan hún hvarf af heimili sínu og eiginmanns síns, milljarðamæringsins Tom Hagen, í Lørenskógi þann 31. október í fyrra en óþekktir aðilar, sem gengið var út frá að hefðu rænt henni, kröfðust yfir milljarðs íslenskra króna í lausnargjald í órekjanlegri rafmynt. Áður hefur verið fjallað um vísbendingar þess efnis að hið meinta mannrán hafi verið þaulskipulagt. Þannig fundust ummerki um að Anne Elisabeth hafi verið dregin út af baðherbergi á heimili sínu daginn sem hún hvarf.

Einnig settu hinir meintu mannræningjar sig í samband við fjölskyldu Anne Elisabeth í janúar síðastliðnum og þá hafa verið uppi kenningar um að glæpagengi frá Balkanskaga bæru ábyrgð á hvarfi hennar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.