Erlent

Hafa flett ofan af fleiri skrefum í áætlun mannræningjanna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ekkert er vitað hvar Anne-Elisabeth Hagen er niðurkomin eða hvort hún er á lífi.
Ekkert er vitað hvar Anne-Elisabeth Hagen er niðurkomin eða hvort hún er á lífi. Mynd/Norska lögreglan
Lögreglumenn sem rannsaka hvarf Anne-Elisabeth Hagen hafa fundið fleiri vísbendingar sem gefa til kynna að mannránið hafi verið þaulskipulagt. Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá þessu en ekki hefur verið fjallað áður um umræddar vísbendingar.

Anne-Elisabeth er gift milljarðamæringnum Tom Hagen. Talið er að henni hafi verið rænt af heimili þeirra hjóna í Lørenskógi þann 31. október síðastliðinn en ekkert hefur spurst til hennar síðan. Meintir mannræningjar hafa sett sig í samband við fjölskylduna og krafist milljóna í lausnargjald í rafmyntinni Monero.

Í frétt NRK segir að lögregla hafi flett ofan af fjölmörgum skrefum í áætlun mannræningjanna, sem teygi anga sína marga mánuði aftur í tímann. Lögregla staðfestir þetta í svari við fyrirspurn NRK. Á grundvelli rannsóknarhagsmuna sé hins vegar ekki hægt að veita frekari upplýsingar um það hvers eðlis nýju vísbendingarnar eru.

„Við getum ekki farið nánar út í það hvernig undirbúningsskref þetta hafa verið, hvenær þeim var hrint í framkvæmd eða hvenær komist var á snoðir um þau,“ segir í svari lögreglu.

Heimili Hagen-hjónanna í Fjellhamar í Lørenskógi í Noregi. Talið er að Anne-Elisabeth hafi verið rænt þaðan að morgni 31. október.vísir/epa

Blaðagrein, dularfullir menn og ummerki á baðherberginu

Áður hefur verið greint frá því að grein sem skrifuð var um auðæfi Toms Hagens í norsku héraðsblaði í júlí í fyrra hafi verið til rannsóknar hjá lögreglu. Talið er að greinin hafi mögulega veitt mannræningjunum „innblástur“. Þá hefur lögregla haft nafnlausan rafmyntar-aðgang, sem sagður er vera á vegum mannræningjanna, til rannsóknar en aðgangurinn var stofnaður skömmu eftir að áðurnefnd blaðagrein var birt.

Einnig hefur leit staðið yfir af tveimur mönnum, sem sáust fyrir utan vinnustað Toms Hagens nokkrum klukkutímum áður en Anne-Elisabeth var rænt. Talið er að mannræningjarnir hafi vaktað vinnustaðinn, meðlimi Hagen-fjölskyldunnar og heimili hennar í Lørenskógi í aðdraganda mannránsins.

Norska lögreglan hélt síðast blaðamannafund í gær. Þar kom fram að enn hefðu engar vísbendingar fundist um að Anne-Elisabeth væri á lífi. Lögregla útilokaði jafnframt ekki að Anne-Elisabeth hefði verið ráðinn bani.

Þá greindi norska dagblaðið Verdens Gang frá því í vikunni að fundist hefðu ummerki um að Anne-Elisabeth hafi verið dregin eftir baðherbergisgólfinu á heimili sínu þegar henni var rænt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.