Enski boltinn

Vildi ekki vera hjá Liverpool en félagið gæti fengið fínan pening verði hann seldur aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Camacho gerði lítið annað en æfa þegar hann var hjá Liverpool enda spilaði hann bara tvo keppnisleiki með félaginu.
Rafael Camacho gerði lítið annað en æfa þegar hann var hjá Liverpool enda spilaði hann bara tvo keppnisleiki með félaginu. Getty/ John Powell
Tíma Rafael Camacho hjá Liverpool er lokið í bili því að Evrópumeistararnir ætla að selja hann til portúgalska félagsins Sporting Lisbon.

Leikmaðurinn, sem kom á frjálsri sölu frá Manchester City fyrir þremur árum, vildi snúa aftur heim eftir að hafa fengið nánast ekkert að spila á Anfield síðustu ár.

Sporting Lisbon kaupir Rafael Camacho á fimm milljónir punda samkvæmt erlendum fjölmiðlum en sú upphæð gæti hækkað upp í sjö milljónir punda. Þar með er þó ekki öll sagan sögð.





Liverpool fær nefnilega forkaupsrétt á Rafael Camacho og einnig tuttugu prósent af næstu sölu. Liverpool gæti því fengið fínan pening verði hann seldur aftur. ESPN segir frá.

Sporting Lisbon er þekkt fyrir að vilja fá mikinn pening fyrir sína leikmenn og slái Rafael Camacho í gegn þar verða örugglega mörg félög áhugasöm. Upphæðin sem Liverpool fær gæti því hlaupið á milljónum punda.

Þessi nítján ára gamli Portúgali hefur verið bæði í herbúðum Manchester City og Liverpool á ferlinum en kom til Liverpool árið 2016. Hann spilaði bara tvo leiki með aðalliði félagsins.





Rafael Camacho hafnaði því að skrifa undir nýjan samning við Liverpool vegna þess að hann vildi ekki fara á láni næsta tímabil. Hann vill fá að spila og telur mestar líkur á því hjá sínu æskufélagi.

Camacho snýr því aftur til félagsins þar sem hann byrjaði ferillinn sinn. Camacho vildi frekar fara til Sporting Lisbon þrátt fyrir að Wolves, Schalke og AC Milan hefðu öll áhuga á honum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×