Enski boltinn

Alisson búinn að halda markinu hreinu í átta leikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson fagnar sigri í Meistaradeildinni með hinum markvörðum Liverpool.
Alisson fagnar sigri í Meistaradeildinni með hinum markvörðum Liverpool. Getty/Marc Atkins
Alisson, markvörður Evrópumeistara Liverpool og brasilíska landsliðsins, hefur ekki fengið mark á sig síðan í byrjun maí.

Alisson hélt enn á ný marki sínu hreinu í nótt þegar brasilíska landsliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Suðurameríkukeppninnar. Brasilía vann þá sigur á Paragvæ í vítakeppni en Alisson varð eitt af vítum leikmanna Paragvæ.

Alisson hefur haldið hreinu í öllum fjórum leikjum Brasilíu á Copa América 2019 og hélt einnig markinu hreinu í undirbúningsleik fyrir keppnina.  





Alisson endaði líka tímabilið með Liverpool á svipuðum nótum því hann hélt hreinu í þremur síðustu leikjunum þar á meðal í seinni undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Barcelona og í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á móti Tottenham.

Alisson hefur þar með haldið marki sínu hreinu í átta leikjum í röð með Liverpool eða brasilíska landsliðinu.





Síðastur til að skora framhjá Alisson var Salomón Rondón fyrir Newcastle í 2-3 tapi á móti Liverpool 4. maí. Mark hans kom á 54. mínútu leiksins. Síðan þá hefur Alisson spilað í 756 mínútur án þess að fá á sig eitt einasta mark.

Kaup Liverpool á Alisson líta því betur og betur út með hverjum mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×