Íslenski boltinn

Fimleikafélagið: Gunnar vonast eftir að byrja að spila í júlí

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gunnar Nielsen eftir aðgerðina
Gunnar Nielsen eftir aðgerðina skjáskot
Gunnar Nielsen vonast eftir því að spila aftur fyrir FH í júlí eftir að hann handarbrotnaði í maí. Þetta kom fram í nýjasta þætti af Fimleikafélaginu.

Fimleikafélagið er þáttaröð sem Freyr Árnason framleiðir þar sem skyggnst er bak við tjöldinn hjá FH og fókusinn aðallega settur á leikmenn meistaraflokks karla í fótbolta.

Í nýjasta þættinum fylgist Freyr með Gunnari Nielsen í gegnum endurhæfingarferlið.

Gunnar handarbrotnaði í leik FH og KA þann 10. maí. Hann fór í aðgerð 15. maí og hefur verið í endurhæfingu síðan. Að eigin sögn er Gunnar farinn að geta flest allt nema spila í markinu.

„Það verður erfitt að ná júní en allavega í júlí er ég að vonast til að geta spilað aftur,“ sagði Færeyingurinn um hvernig endurhæfingin gengur.

Í þættinum er Gunnari fylgt eftir í vinnuna, hann ræðir um færeyska landsliðið og tímann þegar hann var hjá Manchester City.

Þar lýsti hann því þegar allt var tilbúið undir það að hann færi í lán til Southampton í einn mánuð því þeim vantaði nauðsynlega markvörð. Hins vegar hafi City hætt við á síðustu stundu því Shay Given, markvörður City, meiddist.

Þá var Gunnar látinn spila leik með varaliði City þetta sama kvöld og í þeim leik meiddist Gunnar og var frá næstu 18 mánuðina.

„Þetta sýnir hvernig eitt augnablik ertu á leið til Southampton og svo breytist það og þú þarft að gera eitthvað annað og þá er maður bara meiddur í 18 mánuði.“

„Það getur allt breyst bara svona,“ sagði Gunnar og smellti fingrum.

Allan þáttinn má sjá hér að neðan.



Klippa: Fimleikafélagið: Aðgerð og endurhæfing Gunnars Nielsen



Fleiri fréttir

Sjá meira


×