Erlent

Yfir tuttugu gráðum hlýrra en vanalega á Grænlandi og ís í lágmarki

Kjartan Kjartansson skrifar
Bráðnandi borgarísjaki við strendur Grænlands. Myndin er úr safni.
Bráðnandi borgarísjaki við strendur Grænlands. Myndin er úr safni. Vísir/Getty

Bráðnun Grænlandsjökuls og hafíss á Norður-Íshafinu er við það að setja met. Hitinn á Grænlandi var meira en tuttugu gráðum yfir meðallagi á miðvikudag og við norðurströnd Alaska þar sem hafís tekur yfirleitt aldrei upp er opið haf.

Gögn Snjó- og ísgagnamiðstöðvar Bandaríkjanna benda til þess að umfangsmesta bráðnun Grænlandsjökuls svo snemma sumars frá því að mælingar hófust hafi átt sér stað í vikunni. Óvenjuleg hlýindi á austanverðu Grænlandi og inn á jöklinum hafa sett af stað bráðnun á um 45% íshellunnar, að því er segir í umfjöllun Washington Post.

Svo umfangsmikil bráðnun á sér yfirleitt ekki stað á Grænlandi fyrr en um mitt sumar og stundum ekki einu sinni þá.

Hlýindin má rekja til hæðarinnar sem hefur setið yfir Grænlandi undanfarið og hefur meðal annars valdið blíðviðri á Íslandi. Sjálfvirk veðurstöð uppi á jöklinum sýndi hita yfir frostmarki 12. júní. Það gerðist síðast í júlí árið 2012 þegar mesta bráðnun sem sést hefur á Grænlandi átti sér stað.

Bráðnun hafíssins er ennþá meiri. Útbreiðsla hafíssins á norðurskautinu hefur ekki mælst minni á þessum tíma árs frá því að gervihnattamælingar hófust árið 1979. Hop hafíssins í Tjúkta- og Beaufort-hafi við Norður-Alaska er sérstaklega sögð fordæmalaus.

Vorið hefur einnig verið óvenjuhlýtt víða á norðurslóðum. Þannig hófst bráðnun á Grænlandsjökli um mánuði fyrr en í meðalári og í Alaska losnuðu ár fyrr úr klakaböndum en nokkru sinni áður.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.