Erlent

Bráðnun hófst mánuði fyrr á Grænlandi eftir óvanaleg hlýindi

Kjartan Kjartansson skrifar
Grænlandsjökull bráðnar nú hratt vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Myndin er af Jakobshafnarjöklinum á vesturströnd Grænlands.
Grænlandsjökull bráðnar nú hratt vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Myndin er af Jakobshafnarjöklinum á vesturströnd Grænlands. Vísir/EPA

Sumarbráðnun íss á Grænlandi er þegar hafin og er það sagt rúmum mánuði fyrr en í venjulegi árferði. Hiti á suðausturströnd Grænlands hefur farið allt að tuttugu stigum yfir meðaltal síðustu vikur.

Vanalega byrjar Grænlandsjökull ekki að bráðna fyrr en í maí en í vor mældist fyrst bráðnun 7. apríl, að því er segir í frétt Washington Post. Loftihiti hækkaði skyndilega upp í 5°C eftir að meira en tuttugu stiga frost hafði verið þar í byrjun mánaðar. Í kjölfarið kólnaði aðeins aftur en síðustu vikuna hefur hitinn verið um eða yfir frostmarki.

Snjó- og ísgagnamiðstöð Bandaríkjanna segir að hraði bráðnunarinnar svo snemma vors sé í hæstu hæðum. Gervihnattamyndir sýni gríðarlega bráðun svo snemma á svæðum við suðausturströndina.

Hlýindin eru rakin til hlýs lofts sem hefur streymt norður á bóginn frá Flórída vegna breytinga á skotvindum. Lítil útbreiðsla hafíss í Norður-Íshafinu norður af Skandinavíu hafi magnað hlýnunina. Vísindamenn búast við því að slíkar aðstæður verði tíðari með áframhaldandi hnattrænni hlýnun af völdum manna.

Víðar hefur verið hlýtt á norðlægum slóðum í vetur og byrjun vors. Í Alaska hafa þverár Júkonfljóts aldrei losnað fyrr úr klakaböndum og á Skotlandi fór hitinn yfir tuttugu gráður í febrúar. Haf- og loftlagsstofnun Bandaríkjanna staðfesti nýlega að marsmánuður hafi verið sá annar hlýjasti frá því að mælingar hófust.


Tengdar fréttir

Regn og hlýindi stöðva hundasleðakeppni í Alaska

Aflýsa hefur þurft hundasleðakeppnum og stytta leiðir vegna aðstæðna í Alaska þar sem hitinn hefur verið yfir frostmarki undanfarið. Á sama tíma bítur kuldaboli íbúa í miðvesturríkjum Bandaríkjanna fast.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.