Erlent

Styrkur koltvísýrings ekki verið meiri í tíð mannkynsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá borginni Arkhangelsk í norðanverðu Rússlandi þar sem hitinn hefur verið meira en tvöfalt hærri en hann fer venjulega mest í á þessum árstíma.
Frá borginni Arkhangelsk í norðanverðu Rússlandi þar sem hitinn hefur verið meira en tvöfalt hærri en hann fer venjulega mest í á þessum árstíma. Vísir/Getty
Styrkur koltvísýrings í lofthjúpi jarðar mælist nú yfir 415 hlutar af milljón í fyrsta skipti frá því að mannkynið kom til sögunnar. Um helgina fór hiti í norðanverðu Rússlandi í og yfir þrjátíu gráður, um tuttugu stigum meira en mesti hiti þar á þessum árstíma í venjulegu árferði.

Beinar mælingar hafa verið gerðar á styrk koltvísýrings á Mauna Loa-athugunarstöðinni á Havaí frá 6. áratug síðustu aldar. Á laugardag mældist styrkurinn 415 hlutar af milljón. Hann hefur ekki verið meiri í að minnsta kosti 800.000 ár og líklega í meira en þrjár milljónir ára, að sögn Washington Post.

Gróðurhúsalofttegundir í lofthjúpi jarðar hafa aukist um helming að styrk frá iðnbyltingunni, fyrst og fremst vegna bruna manna á jarðefnaeldsneyti eins og kolum, olíu og jarðgasi. Nú þegar hefur meðalhiti jarðar risið um eina gráðu frá iðnbyltingu og vísindamenn spá því að hlýnunin gæti numið þremur til fjórum gráðum fyrir lok aldarinnar komi menn ekki böndum á losun sína á gróðurhúsalofttegundum.

Svo mikil og hröð hlýnun hefði gríðarlegar afleiðingar fyrir lífríki jarðar og samfélag manna af völdum hækkunar yfirborðs sjávar, verri þurrka, ákafari úrkomu og vaxandi veðuröfga svo eitthvað sé nefnt.

Hitinn sem hefur mælst víða við Norður-Íshafið undanfarna daga þykir sérstaklega óvenjulegur. Í rússneska bænum Arkhangelsk við Hvítahaf sem gengur suður úr Barentshafi sýndi hitamælirinn 29 gráður á laugardag. Þar er hæsti hiti að meðaltali um tólf gráður á þessum árstíma. Í Koynas, austur af Arkhangelsk, fór hitinn upp í 31 gráðu.

Víða fór hitinn meira en tuttugu gráður yfir meðaltal í Rússlandi og Kasakstan við Hvítahafið. Í austanverðu Finnlandi náði hitinn 25 gráðum á laugardag og hefur ekki verið hlýjar þar í vor.

Hitabylgjan nú er sögð í takti við óvenjuleg hlýindi á norðurskautinu og á miðlægum breiddargráðum það sem af er ári. Á Grænlandi hófst bráðnun jökla um mánuði fyrr en vanalega og í Alaska hafa ár losnað úr klakaböndum fyrr en nokkru sinni áður. Útbreiðsla hafíss við lok vetrar hefur einnig verið í lægstu lægðum.

Loftslagsbreytingar af völdum manna eru enda enn áþreifanlegri á norðlægum breiddargráðum en víðast annars staðar á jörðinni. Þar hlýnar nú um tvöfalt hraðar en á jörðinni að meðaltali.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×