Erlent

Sársaukafull fortíð ástæða þess að varnarmálaráðherraefni Trump hættir við

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Patrick Shanahan er hættur sem stafandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Patrick Shanahan er hættur sem stafandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að Patrick Shanahan, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, muni ekki verða skipaður ráðherra til frambúðar. Í gær birtu bandarískir fjölmiðlar upplýsingar um ofbeldisfullar heimiliserjur úr fortíð Shanahan.

Trump tilkynnti um þetta í tísti fyrr í dag þar sem hann sagði að Shanahan hefði tilkynnt honum um að hann hefði ekki hug á því að halda áfram í staðfestingarferlinu sem ganga þarf í gegnum til þess að verða skipaður ráðherra. Hann hefði hug á því að eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni. Shanahan hefur starfað sem varnarmálaráðherra frá því að Jim Mattis sagði af sér embætti í janúar.

USA Today greindi frá því í gær að sem hluti af bakgrunnsathugun Shanahan væri FBI að skoða níu ára gamalt heimilisofbeldismál sem tengdist Shanahan og þáverandi eiginkonu hans. Í frétt USA Today segir að þau bæði hafi sakað hvort annað um ofbeldi, og að kona hans hafi verið handtekin vegna málsins.

Þá greindi Washington Post frá því að sonur þeirra hafi verið sakaður um að lemja móður sína og þáverandi eiginkonu Shanahan, með hafnaboltakylfu þannig að hún missti meðvitund árið 2011.  Greindi Post frá efni minnisblaðs sem Shanahan skrifaði þar sem hann hélt því fram að sonur hans hefði beitt kylfunni í sjálfsvörn.

Í viðtali við Post vegna málsins sagði Shanahan að hann teldi nú að það hafi verið rangt af sér að skrifa minnisblaðið og að það væri erfitt fyrir hann að lesa það núna, átta árum síðar.

Í yfirlýsingu vegna málsins sagði Shanahan að það væri óheppilegt að málið væri dregið aftur upp í sviðsljósið. Hann hefði því tekið ákvörðun um að draga sig í hlé sem starfandi varnarmálaráðherra til þess að hlífa börnum sínum þremur.

Trump hefur þegar skipað Mark Esper, hermálaráðherra, í embætti sem starfandi varnarmálaráðherra. Búist er við því að Trump muni tilnefna hann til embættisins.


Tengdar fréttir

Drekinn að ná í stélið á erninum

Undanfarin ár hafa yfirvöld í Kína dælt milljörðum dala í her landsins sem býr nú yfir háþróuðum búnaði og vopnum. Hernaðargeta Kína hefur aukist til muna og eru sum vopn þeirra orðin þróaðri en vopn Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×