Enski boltinn

Átján ára var hann að flokka skrúfur en er nú orðinn dýrasti leikmaður í sögu Aston Villa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Wesley Moraes hefur gengið í gegnum ýmislegt þrátt fyrir ungan aldur
Wesley Moraes hefur gengið í gegnum ýmislegt þrátt fyrir ungan aldur vísir/getty

Aston Villa gerði Wesley Moraes að dýrasta leikmanni í sögu félagsins á dögunum þegar félagið komst að samkomulagi við Club Brugge um að borga 22 milljónir punda fyrir framherjann.

Moraes er aðeins 22 ára gamall en hann hefur gengið í gegnum ýmislegt á síðustu árum. The Times fór yfir sögu Moraes, en hann hafði ekki spilað fótbolta á alvöru fótboltavelli fyrr en fyrir sjö árum síðan.

Framherjinn missti föður sinn þegar hann var aðeins níu ára gamall. Hann var orðinn tveggja barna faðir sjálfur þegar hann var 16 ára og átján ára gamall vann hann í verksmiðju við að flokka skrúfur og rær á færibandi fyrir um 20 þúsund krónur á mánuði.

Þegar hann var 15 ára, sama ár og hann eignaðist sitt fyrsta barn, fór hann fyrst að spila fótbolta af meiri krafti og fór í margar prufur í Brasilíu sem á endanum leiddu til þess að hann fór á reynslu til Atletico Madrid og franska liðsins Nancy.

Ekkert kom hins vegar upp úr þeim og hann endaði aftur í heimalandinu, 18 ára, að flokka skrúfur.

Moraes var agalaus þegar hann mætti til Belgíu vísir/getty

Þá kom umboðsmaðurinn Paulo Nehmy auga á hann og fór að fylgjast með Moraes. Nehmy stakk upp á því að hann færi til Trencin í Slóvakíu og spilaði með undir 19 ára liði félagins. Moraes gerði það og árið 2016 var hann svo seldur til Club Brugge fyrir eina milljón evra.

Í Bruges var lífstíll framherjans tekinn í gegn. Þegar hann kom til Belgíu hafði hann mikinn áhuga á næturlífinu og lífstíllinn var alls ekki nógu góður. Hann þurfti að fá mann með sér í matvöruverslun til þess að benda honum á að kaupa ávexti og jógúrt og sleppa skyndimáltíðunum.

Þá var hann mjög óheflaður og var algengt að hann fengi rauð spjöld fyrir að slá höndum og olnbogum í átt að andstæðingnum en þjálfarar Brugge náðu að koma því úr leik hans. Í Bruges varð hann að góðum framherja, hann skoraði 13 og 11 mörk á síðustu tveimur tímabilum í Belgíu.

Nú er hann búinn að semja við eitt af sögufrægari liðum Englands og mun spila í ensku úrvalsdeildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.