Erlent

Leiðtogi kynlífsþrælkunarhópsins sakfelldur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Teiknari AP var viðstaddur réttarhöldin. Raniere er í fjólubláu peysunni.
Teiknari AP var viðstaddur réttarhöldin. Raniere er í fjólubláu peysunni. AP/Elizabeth Williams

Keith Raniere, maðurinn sem sakaður var um að hafa verið leiðtogi sjálfshjálparhóps sem hneppti konur í kynlífsþrælkun, var í kvöld sakfelldur í réttarhöldunum yfir honum. Hann gæti átt yfir höfði sér lífstíðar fangelsisdóm.

Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu í kvöld að sakfella ætti Raniere af öllum ákæruliðum í málinu en hann var ákærður fyrir fjárglæfrar, kynlífsþrælkun og ýmsa aðra glæpi. Raniere var leiðtogi hóps sem kallaðist NXIVM en svo virðist sem að konur hafi verið sérstaklega fengnar í sérstakan undirhóp NXIVM til þess að stunda kynlíf með Raniere.

Réttarhöldin yfir honum stóðu yfir í sex vikur og á meðan á þeim stóð kölluð saksóknarar til fjölda kvenna sem höfðu verið í sjálfshjálparhópnum. Lýstu þær hvernig það hafi verið að vera svokallaður þræll í hópnum. Söfnuðurinn var sögn Raniere ætlaður til þess að hjálpa fylgjendum hans en virðist í raun hafa verið kynlífsþrælkunarbúðir.

Málið snýr einkum að hóp innan NXIVM sem kallaðist DOS og átti að vera einhvers konar kvenfélag innan NXIVM. Hópurinn átti eingöngu að vera skipaður konum og var tilgangur hans að bæta líf þeirra og vera valdeflandi.

Talið er að Raniere hafi haft um 15 til 20 konur sem stunduðu kynlíf með honum eftir hans hentisemi, og var þeim meinað að ræða samband sitt við leiðtogann við aðra. Þá var þeim skylt að taka nektarmyndir af sér sem gat verið lekið ef þær fóru gegn vilja Raniere. Þá voru þær brennimerktar upphafsstöfum hans.

Raniere neitaði sök í málinu en bar ekki vitni í því. Raunar kölluðu verjendur hans engin vitni til að tala máli hans á meðan á réttarhöldunum stóð. Byggðist vörnin einkum á því að samræði Raniere og kvennanna hafi verið með samþykki beggja aðila.

Fórnarlömb hans klöppuðu þegar dómurinn var lesinn upp fyrir utan réttarsalinn. Lengd fangelsisvistar Raniere verður ákveðin 25. september næstkomandi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×