Enski boltinn

Liverpool spilar aftur um bikar í Istanbul í ágúst og um sjö titla alls 2019-20

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool 2005, kyssir Meistaradeildarbikarinn í Istanbul. Hann er ekki lengur síðasti fyrirliði Liverpool til að lyfta þessum heimsfræga og eftirsótta bikar.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool 2005, kyssir Meistaradeildarbikarinn í Istanbul. Hann er ekki lengur síðasti fyrirliði Liverpool til að lyfta þessum heimsfræga og eftirsótta bikar. Getty/Tom Jenkins
Liverpool á nú mjög góðar minningar frá Madrid eftir magnaða helgi en það er samt enginn stuðningsmaður félagsins búinn að gleyma leiknum ótrúlega í Istanbul í Tyrklandi fyrir fimmtán árum.

Með því að vinna Tottenham í úrslitaleik Meistaradeildarinnar um helgina þá er ljóst að Liverpool mætir Evrópudeildarmeisturum Chelsea í leiknum um Ofurbikar UEFA í ágúst.

UEFA hefur nú staðfest að sá leikur fer fram miðvikudaginn 14. ágúst eða á milli fyrstu og annarrar umferðar ensku úrvalsdeildarinnar 2019-20.





Leikurinn fer fram í Istanbul í Tyrklandi en þó ekki á sama leikvelli og fyrir fimmtán árum. Sá leikur var spilaður á Atatürk Ólympíuleikvanginum en þessi fer fram á endurgerðum Vodafone Park sem er heimavöllur Besiktas.

Liverpool er síðasta enska liðið sem vann Ofurbikar Evrópu en eftir sigur liðsins í Meistaradeildinni vorið 2005 þá vann Liverpool 3-1 sigur á CSKA Moskvu í Ofurbikarnum í Mónakó um haustið.

Þetta verður samt ekki fyrsti „úrslitaleikur“ Liverpool á næsta tímabili því um ellefu dögum fyrr mun liðið mæta Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

Liverpool mun alls taka þátt í sjö keppnum á næstu leiktíð því í desember spilar liðið síðan í heimsmeistarakeppni félagsliða. Það verður því nóg að gera hjá lærisveinum Jürgen Klopp.

Keppnir Liverpool liðsins tímabilið 2019 til 2020:

Enska úrvalsdeildin

Enska bikarkeppnin

Enski deildabikarinn

Meistaradeildin

Samfélagsskjöldurinn

Ofurkeppni UEFA

Heimsmeistarakeppni félagsliða




Fleiri fréttir

Sjá meira


×