Erlent

Ströng þungunarrofslög í Louisiana staðfest

Kjartan Kjartansson skrifar
Konur mótmæla þungunarrofsfrumvarpinu í ríkisþinghúsinu í Baton Rouge í Louisiana á uppstigningardag.
Konur mótmæla þungunarrofsfrumvarpinu í ríkisþinghúsinu í Baton Rouge í Louisiana á uppstigningardag. AP/Melinda Deslatte
Ríkisstjóri Louisiana í Bandaríkjunum staðfesti ný lög sem banna í reynd þungunarrof í ríkinu. Með lögunum verða fóstureyðingar ólöglegar eftir að hjartsláttur greinist í fóstri. Það getur gerst þegar í sjöttu viku meðgöngu, áður en margar konur vita að þær eru þungaðar.

Ríkisþingið, þar sem repúblikanar ráða ríkjum, samþykkti frumvarpið með afgerandi meirihluta á miðvikudag. John Bel Edwards, demókratinn sem situr á ríkisstjórastóli, skrifaði undir það í gær. Edwards er sjálfur andstæðingur réttar kvenna til þungunarrofs, ólíkt flestum flokkssystkinum sínum annars staðar í Bandaríkjunum.

Fjögur önnur ríki Bandaríkjanna hafa fyrir samþykkt svipuð lög um þungunarrof á þessu ári. Þau ströngustu voru samþykkt í Alabama. Þar verður þungunarrof bannað í nær öllum tilfellum. Líkt og í Alabama gera lögin í Louisiana ekki undanþágu fyrir tilfelli nauðgunar eða sifjaspells, aðeins ef líf konunnar er í hættu.

Lögin stangast öll á við fordæmi Hæstaréttar Bandaríkjanna sem kveður á um að konur skuli hafa rétt til þungunarrofs og þeim hefur verið skotið til dómstóla. Repúblikanar í nokkrum ríkjum hafa engu að síður samþykkt þau með það fyrir augum að Hæstiréttur, sem nú er að meirihluta skipaður íhaldsmönnum, snúi því fordæmi við.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×