Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Valur 2-1 | Valur á botninum eftir dramatík í Garðabæ

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/vilhelm
Það fór mjög mikilvægur leikur fram á Samsung vellinum í kvöld þegar Stjarnan sigraði Val, 2-1. Valsmenn leiddu með einu marki í hálfleik en Stjarnan náði að koma til baka og vinna leikinn. Kærkominn sigur Stjörnumanna. 

 

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Valsmenn fengu fyrsta færi leiksins. Eftir góðan samleik átti Sindri Björnsson fína tilraun að marki Stjörnunnar en Haraldur Björnsson varði vel. 

 

Það var svo fátt um fína drætti næstu mínútur eða allt þar til Valsmenn komust yfir í leiknum en þá gerðu varnarmenn Stjörnunnar sig seka um mikil mistök! 

 

Martin Rauschenberg gaf þá glórulausa sendingu til baka á Harald í markinu en Haraldur rann á vellinum sem varð til þess að Ólafur Karl Finsen komst inn í sendinguna, komst framhjá Haraldi og rúllaði boltanum þægilega í markið. Ótrúlegt mark og Íslandsmeistararnir komnir yfir. Það var lítið sem gerðist eftir þetta og staðan í hálfleik því 0-1.

 

Stjörnumenn voru töluvert sterkari í byrjun síðari hálfleiks og sóttu stíft á Valsmenn en það bar þó ekki árángur fyrr en á 64.mínútu en þá átti Eyjólfur Héðinsson fyrirliði Stjörnunnar frábært skot sem hafnaði í stönginni. Þorri Geir Rúnarsson hirti hinsvegar frákastið og negldi boltanum í slánna og inn! 1-1 og ennþá rétt rúmur hálftími eftir.

 

Leikurinn datt aðeins niður eftir markið og lítið um færi en það var svo ekki fyrr en á síðustu mínútu venjulegs leiktíma sem að heimamenn skoruðu sigurmarkið! Þá var það varamaðurinn Guðmundur Steinn Hafsteinsson sem hamraði boltanum yfir Hannes eftir frábæra fyrirgjöf frá hinum varamanninum Sölva Snæ. Valsmenn reyndu að jafna en allt kom fyrir ekki, lokatölur 2-1 fyrir Stjörnuna og þeir skilja Íslandsmeistarana eftir á botninum með aðeins 4 stig!

 

Af hverju vann Stjarnan?

Þeir voru grimmari í seinni hálfleik og gáfust aldrei upp. Þeir vildu þetta meira og það virkaði eins og Valsmenn væru hreinlega búnir á því.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Eyjólfur Héðinsson fyrirliði Stjörnumanna var öflugur á miðjunni í kvöld. Hann var óheppinn að skora ekki en sem betur fer tók Þorri Geir frákastið. Guðjón Baldvinsson hljóp mikið og skilaði sínu. Hjá Val var Hannes Þór Halldórsson flottur í markinu.

 

Hvað gekk illa?

Enn og aftur er sóknarleikur Vals ekki upp á marga fiska. Þeir eru með Ólaf Karl Finsen fremstan og því miður þá er hann ekki nógu góður framherji til að bera uppi sóknarleik liðs sem ætlar sér að vera í toppbaráttu.

 

Hvað gerist næst?

Nú fara liðin í góða 2 vikna pásu vegna landsleikja. Stjarnan fer í heimsókn í krikann og mæta FH þann 14.júní en Valsmenn fá ÍBV í heimsókn daginn eftir, þann 15.júní.

 

Rúnar Páll: Það getur allt gerst í þessu

Rúnar Páll Sigmundsson var gríðarlega ánægður með sigur sinna manna gegn Val í kvöld. Þeir voru 1-0 undir í hálfleik en snéru leiknum sér í hag og unnu leikinn 2-1. Hann sagði sigurinn vera mjög mikilvægan upp á framhaldið í sumar.

 

„Gríðarlega mikilvægur sigur og kærkomið. Við höfum ekki verið að ná í úrslit þrátt fyrir að vera betri aðilinn í leikjum fyrr í sumar þannig þetta var mjög sætt.”

 

Rúnar var mjög ánægður með innkomu Guðmundar Steins sem skoraði sigurmark Stjörnunnar.

 

„Já mjög sáttur, þetta er það sem hann er flinkur í. Liðið í heild sinni var frábært í dag og mættu mjög tilbúnir til leiks og við þurfum að halda þessu áfram.”

 

Hann sagði að það hafi verið mjög svekkjandi að sjá mistökin í fyrri hálfleik sem gáfu Valsmönnum forystuna í leiknum.

 

„Auðvitað var það svekkjandi en svona er boltinn, það getur allt gerst í þessu og við ræddum vel saman í hálfleik og vorum ákveðnir að vera þolinmóðir og það skilaði þremur stigum í dag.”

 

Hann sagði að lokum hvað það væri mikilvægt að fara inn í landsleikjafríið með sigur á bakinu frekar en tap.

 

„Það er gríðarlega mikilvægt og upp á framhaldið skiptir það öllu og fyrir framan þennan frábæra stuðning sem gaf mikið í dag. Við gætum ekki verið ánægðari,” sagði Rúnar Páll að lokum.

 

Óli Jó: Svolítið saga sumarsins hjá okkur

Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals var svekktur eftir tap sinna manna í Garðabænum í kvöld. Þeir leiddu í hálfleik en það dugði ekki til og þeir töpuðu 2-1. Hann talaði um að þetta væri svolítið saga sumarsins.

 

„Þetta var hundfúlt og þetta er svolítið saga sumarsins hjá okkur því miður.”

 

Hann var spurður út í færið hjá Ólafi Karl í lokin og hvort það hafi ekki verið svekkjandi að sjá hann ekki í netinu.

 

„Auðvitað var það spælandi en fyrst og fremst eru þetta mikil vonbrigðarúrslit fyrir okkur.”

 

Valsmenn sitja í fallsæti eftir 7 umferðir og Óli var spurður út í stöðu sína hjá félaginu en hann sagði að þetta væri ekki góð staða í deildinni en að þeir myndu halda ótrauðir áfram.

 

Hann sagði að lokum að ef það væri einhvern tímann kærkominn tími fyrir frí þá væri það núna en deildin fer í 2 vikna pásu vegna landsleikja.

 



Ólafur Karl: Við stöndum allir saman í þessu

Ólafur Karl Finsen leikmaður Vals var mjög svekktur eftir tap Vals gegn Stjörnunni í kvöld. Hann sagði þetta vera mjög vont tap.

 

Óli fékk gott færi stutt fyrir leikslok en skallaði boltann rétt yfir markið. Hann viðurkenndi það að hafa varla séð boltann.

 

„Nei ég sá boltann aldrei, hann fer bara í starthol útaf sólinni, ég áttaði mig ekkert á þessu. Ég giskaði bara á þetta og sá ekki hvar hann endaði fyrr en ég var búinn að skalla boltann.”

 

Það vakti mikla athygli fagn Ólafs þegar hann skoraði fyrir Val en hann hljóp á bekkinn og faðmaði þjálfarateymið. Hann sagði það vera skilaboð þess að mórallinn sé góður og menn treysta þjálfurum liðsins.

 

„Nei það var engin sérstök ástæða svosem en við höfum heyrt að það sé óeining og slæmur mórall en það er bara ekki rétt. Við stöndum allir saman í þessu, í blíðu og stríðu og núna er brekka en við erum með stóran og sterkan hóp. Ég er bara að sýna að við treystum þjálfurunum og þeir hafa traust hópsins,” sagði Ólafur Karl Finsen að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira