Íslenski boltinn

Þjálfari Þórs/KA um meistara Blika: Vorum betri en þær í fyrra og erum betri en þær í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikar fagna á móti Þór/KA í fyrra.
Blikar fagna á móti Þór/KA í fyrra. Vísir/Bára
Þór/KA tekur á móti Breiðabliki í kvöld í uppgjöri Íslandsmeistaraliða síðustu tveggja sumra en þessi stórleikur 4. umferðar Pepsi Max deildar kvenna verður í beinni á Stöð 2 Sport.

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA, var kokhraustur í viðtali við ÞórTV fyrir leikinn sem hefst klukkan 18.30 í kvöld

„Við vorum betri heldur en Breiðablik í fyrra og erum betri en Breiðablik í ár. Við ætlum að sýna þeim hver ræður og vinna þennan leik,“ sagði Halldór Jón í viðtalinu.

Breiðablik fékk fimm stigum meira en Þór/KA í fyrra og vann seinni leik liðanna 3-0 á Kópavogsvelli í þriðju síðustu umferðinni. Eftir þann sigur voru úrslitin nánast ráðin.

„Þetta er sama Breiðabliksliðið og hefur verið undanfarin ár. Við þekkjum hvern einasta leikmann í þeirra liði og þetta snýst bara um að okkar stelpur nái upp sínum leik, fari eftir fyrirmælum og reyni að kreista það allra mesta úr sjálfum sér,“ sagði Halldór Jón.

Breiðabliksliðið er með fullt hús á toppi Pepsi Max deildar kvenna með 9 stig og markatöluna 9-1 eftir sigra á ÍBV, Selfossi og Keflavík.

„Ég er ekkert að grínast með það að við erum með betra lið en þetta Blikalið. Þær eru búnar að spila við töluvert slakari lið heldur en við í upphafi móts. Þær eru því eðlilega með níu stig enda skyldusigrar allir. Nú er bara komið að okkur og við ætlum að halda áfram á þeirri góðu siglingu sem við erum á, mæta af fullri alvöru og klára þennan leik,“ sagði Halldór Jón við Þór/KA en allt viðtalið má sjá hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×