Erlent

Segja öfga hægri hópa dreifa hatri til milljóna Evrópu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jordan Bardella, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar í Evrópuþingskosningunum, og Marine Le Pen, leiðtogi flokksins, sem er einn þekktasti hægri öfga flokkur í Evrópu.
Jordan Bardella, frambjóðandi frönsku Þjóðfylkingarinnar í Evrópuþingskosningunum, og Marine Le Pen, leiðtogi flokksins, sem er einn þekktasti hægri öfga flokkur í Evrópu. vísir/getty
Aktívistasamtökin Avaaz segja öfga hægri hópa hafa dreift falsfréttum og hatursorðræðu til milljóna Evrópubúa á Facebook í aðdraganda Evrópuþingskosninganna sem hefjast næstkomandi fimmtudag.

Facebook hefur lokað fyrir slíkar síður á samfélagsmiðlinum í aðdraganda kosninganna en að sögn Avaaz voru síðurnar með um sex milljónir fylgjenda. Þá er Facebook að skoða hundruð annarra síðna á miðlinum sem eru með allt að 26 milljónir fylgjenda.

Í umfjöllun um málið á vef Guardian segir að Avaaz hafi tilkynnt meira en 500 hópa eða síður til Facebook sem settar hafa verið upp víðs vegar um Evrópu, meðal annars í Frakklandi, Ítalíu, Bretlandi, Spáni, Þýskalandi og Póllandi.

Mun vinsælli en opinberar síður flokkanna

Flestar síðurnar dreifa falsfréttum eða nota nafnlausa notendur til þess að dreifa því sem deilt hefur verið á síðunum en slíkt gengur gegn reglum Facebook að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.

Síður sem þessar eru mun vinsælli og ná til stærri hóps en opinberar síður öfga hægri flokka og frambjóðenda þeirra en að sögn Avaaz hafa síðurnar sem teknar hafa verið niður verið skoðað 500 milljón sinnum.

 

„Facebook-notendur hafa mikið verið að skoða þessar síður. Það skiptir ekki máli hvað þú ert með marga fylgjendur ef þú nærð ekki til neinna. Síðurnar hafa verið skoðaðar 500 milljón sinnum sem er hærri tala en kjósendur á kjörskrá í Evrópuþingskosningunum,“ segir Christoph Scott hjá Avaaz.

Áróður fyrir hvítri þjóðernishyggju og afneitun á helförinni

Á meðal þess sem hóparnir hafa dreift á Facebook í aðdraganda kosninganna er áróður á frönskum síðum fyrir hvítri þjóðernishyggju og afneitun á helförinni á þýskum síðum.

Scott segir að Facebook hafi brugðist vel við þegar þeim var bent á síðurnar af Avaaz en segir að fyrirtækið þurfi að gera betur í því að uppræta síðurnar sjálft.

„Þeir ættu að gera þetta sjálfir. Við erum um 30 sem erum að vinna í þessu en Facebook er með yfir 30 þúsund starfsmenn í öryggisteymi sínu,“ segir Scott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×