Innlent

Stóðu orkupakkavaktina til sex

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, í þingsal en hún lét sig ekki vanta í umræðurnar í nótt.
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, í þingsal en hún lét sig ekki vanta í umræðurnar í nótt. vísir/vilhelm
Miðflokksmenn á Alþingi héldu málþófi sínu áfram í nótt í umræðum um þriðja orkupakkann. Umræður um hann hófust um klukkan fjögur síðdegis og stóðu til klukkan sex í morgun.

Sem fyrr voru þingmenn Miðflokksins einir um hituna og ræddu málið við hvorn annan fram á morgun. Þetta var fjórði næturfundurinn á síðustu dögum þar sem Miðflokksfólk hefur rætt sín á milli um orkupakkann.

Umræða næturinnar stóð yfir í rúma fjórtán tíma sem fyrr segir. Það er ívið skemur en orkupakkaumræða þriðjudagsins, sem varði í 19 klukkustundir.

Klukkan sex sleit Guðjón Bránsson, einn af forsetum þingsins, fundi og frestaði umræðunni. Næsti þingfundur verður klukkan 15:30 síðdegis og þar er þriðji orkupakkinn fyrsta mál á dagskrá.

Forsætisnefnd Alþingis ákvað í gær að bæta við þingfundum í dag og á morgun en til stóð að báðir dagar færu í nefndafundi. Með þessu eru sjö þingfundadagar eftir en þingsins bíða á fimmta hundrað verkefni.

Alls bíður 71 lagafrumvarp nú fyrstu umræðu í þinginu og tíu önnur bíða annarrar umræðu. Þá eru 105 lagafrumvörp í meðförum nefnda. Auk þess þarf að afgreiða 113 þingsályktunartillögur og 142 fyrirspurnir þingmanna áður en af þinglokum verður hinn 5. júní.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×