Innlent

Miðflokksmenn töluðu um Orkupakkann í 19 tíma samfleytt

Jakob Bjarnar skrifar
Þorsteinn Sæmundsson þingflokksformaður Miðflokksins. En, þingmenn hans töluðu samfleytt í 19 tíma, í gærkvöldi og alla nótt, um Orkupakkann.
Þorsteinn Sæmundsson þingflokksformaður Miðflokksins. En, þingmenn hans töluðu samfleytt í 19 tíma, í gærkvöldi og alla nótt, um Orkupakkann.

„Ég vil biðja Birgi Þórarinsson afsökunar á því að forseti fer fram á að hann fresti því að hann flytji sína 13. ræðu þar sem við verðum nú að gera hlé á fundi, fresta og slíta svo ekki skarist nefndarfundir og þingfundir,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis úr sínum stóli á þinginu nú skömmu fyrir klukkan níu í morgun.

Hann notaði tækifærið og þakkaði starfsfólki Alþingis að hafa þurft að vaka yfir ræðuhöldum þingmannanna. „Sérstaklega fáliðaðari þingskrifstofu sem hefur þurft að leggja mikið á sig til að þetta fundahald mætti fara hér fram. En hér hefur nú staðið fundur í rúmar 19 klukkustundir.“

Umræða hefur þannig staðið í alla nótt. Þar hafa Miðflokksmenn staðið í pontu mörgum til mikillar mæðu. Einn þeirra er Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingar sem skrifaði í morgun á Facebooksíðu sína að málþóf sé fjandsamleg yfirtaka á Alþingi, framkvæmd með því að toga og teygja venjur og reglur. Leið til að láta þingræðið ekki hafa sinn gang.

„Menn koma upp í ræðustól og tala en ofmælt er að kalla það ræður sem þar er flutt - miklu frekar nokkurs konar óræður. Óræða eftir óræða dynur á okkur og andsvörum er breytt í meðsvör blygðunarlaust. Þetta sýnir mikið virðingarleysi fyrir ræðustólnum og stofnuninni. Málþóf getur verið neyðarréttur minnihluta þegar meirihluti keyrir í gegn ólög en Miðflokkurinn lítur á það sem íþróttakeppni, leið til að sýna styrk og getu til að beita ofríki,“ segir Guðmundur Andri.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.