Íslenski boltinn

Óskar orðinn leikjahæstur KR-inga í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Örn hefur skorað eitt mark í fimm leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Óskar Örn hefur skorað eitt mark í fimm leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar. vísir/bára
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, náði merkum áfanga í 3-2 sigri Vesturbæinga á HK-ingum í Pepsi Max-deildinni á mánudaginn var.

Hann er orðinn leikjahæsti leikmaður KR í efstu deild en leikurinn á mánudaginn var hans 240. fyrir félagið í efstu deild.

Óskar jafnaði leikjamet Þormóðs Egilssonar þegar KR tapaði fyrir Grindavík, 2-1, í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar í síðustu viku og sló það svo á mánudaginn.

Óskar hefur leikið alla deildarleiki KR undanfarin fjögur tímabil, alls 60 leiki í röð. Hann missti síðast af leik gegn Víkingi í 11. umferð 2015.

Nálgast markamet KR
Óskar hefur leikið með KR undanfarin 13 tímabil.vísir/anton brink
Óskar kom til KR frá Grindavík fyrir tímabilið 2007. Hann er á sínu þrettánda ári í KR.

Njarðvíkingurinn nálgast markamet KR-inga í efstu deild. Hann hefur skorað 57 mörk og vantar aðeins fimm mörk til að jafna met Ellerts B. Schram.

Óskar hefur alls leikið 292 leiki í efstu deild fyrir Grindavík og KR. Hann er í 3. sætinu á listanum yfir leikjahæstu menn í efstu deild karla frá upphafi. Hann vantar bara tvo leiki til að jafna annan Suðurnesjamann, Gunnar Oddsson, í 2. sæti leikjalistans. Birkir Kristinsson er á toppi hans með 321 leik.

Óskar hefur alls skorað 69 mörk í efstu deild. Hann hefur skorað a.m.k. eitt mark á 16 tímabilum í röð í efstu deild.

KR er í 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar með átta stig, fimm stigum á eftir toppliði ÍA. KR sækir Víking heim í 6. umferð deildarinnar annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×