Íslenski boltinn

Óskar orðinn leikjahæstur KR-inga í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Örn hefur skorað eitt mark í fimm leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar.
Óskar Örn hefur skorað eitt mark í fimm leikjum í Pepsi Max-deildinni í sumar. vísir/bára

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, náði merkum áfanga í 3-2 sigri Vesturbæinga á HK-ingum í Pepsi Max-deildinni á mánudaginn var.

Hann er orðinn leikjahæsti leikmaður KR í efstu deild en leikurinn á mánudaginn var hans 240. fyrir félagið í efstu deild.

Óskar jafnaði leikjamet Þormóðs Egilssonar þegar KR tapaði fyrir Grindavík, 2-1, í 4. umferð Pepsi Max-deildarinnar í síðustu viku og sló það svo á mánudaginn.

Óskar hefur leikið alla deildarleiki KR undanfarin fjögur tímabil, alls 60 leiki í röð. Hann missti síðast af leik gegn Víkingi í 11. umferð 2015.

Nálgast markamet KR

Óskar hefur leikið með KR undanfarin 13 tímabil. vísir/anton brink

Óskar kom til KR frá Grindavík fyrir tímabilið 2007. Hann er á sínu þrettánda ári í KR.

Njarðvíkingurinn nálgast markamet KR-inga í efstu deild. Hann hefur skorað 57 mörk og vantar aðeins fimm mörk til að jafna met Ellerts B. Schram.

Óskar hefur alls leikið 292 leiki í efstu deild fyrir Grindavík og KR. Hann er í 3. sætinu á listanum yfir leikjahæstu menn í efstu deild karla frá upphafi. Hann vantar bara tvo leiki til að jafna annan Suðurnesjamann, Gunnar Oddsson, í 2. sæti leikjalistans. Birkir Kristinsson er á toppi hans með 321 leik.

Óskar hefur alls skorað 69 mörk í efstu deild. Hann hefur skorað a.m.k. eitt mark á 16 tímabilum í röð í efstu deild.

KR er í 4. sæti Pepsi Max-deildarinnar með átta stig, fimm stigum á eftir toppliði ÍA. KR sækir Víking heim í 6. umferð deildarinnar annað kvöld.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.