Íslenski boltinn

Hefur skorað á 16 tímabilum í röð í efstu deild

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Örn skoraði eitt mark og lagði upp annað í sigri KR á ÍBV, 3-0.
Óskar Örn skoraði eitt mark og lagði upp annað í sigri KR á ÍBV, 3-0. vísir/bára
Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, skoraði sitt fyrsta mark í sumar í 3-0 sigri KR-inga á Eyjamönnum í Vesturbænum í 2. umferð Pepsi Max-deildar karla í gær.

Óskar skoraði annað mark KR með góðu skoti á 66. mínútu. Pálmi Rafn Pálmason og Björgvin Stefánsson skoruðu hin mörk KR-inga sem eru með fjögur stig í 4. sæti deildarinnar. Óskar lagði mark Björgvins upp og átti einnig stóran þátt í marki Pálma Rafns.

Óskar, sem er 34 ára, hefur leikið samfleytt í efstu deild frá 2004 og tímabilið í ár er hans sextánda í efstu deild. 

Hann hefur nú skorað a.m.k. eitt mark á öllum 16 tímabilunum sínum í efstu deild, alls 69 mörk í 289 leikjum.

Óskar skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í 3-2 sigri Grindavíkur á Keflavík 28. júní 2004. Óskar skoraði alls fjögur mörk í 16 leikjum fyrsta tímabilið sitt í efstu deild.

Njarðvíkingurinn lék með Grindavík í þrjú tímabil en gekk í raðir KR fyrir tímabilið 2007 og hefur verið þar síðan, fyrir utan tvö stutt stopp í atvinnumennsku, annað hjá Sandnes Ulf í Noregi og hitt hjá Edmonton í Kanada.

Óskar hefur alls skorað 57 mörk fyrir KR í efstu deild og vantar bara fimm mörk til að jafna við Ellert B. Schram sem á markamet KR-inga í efstu deild. Óskar vantar einnig aðeins tvo leiki til að jafna leikjamet Þormóðs Egilssonar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×