Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Víkingur - KR 0-1 | Óskar tryggði KR sigur

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
vísir/bára

KR vann 1-0 sigur á Víkingi er liðin mættust í Pepsi Max-deild karla í Laugardalnum í kvöld. Fylgst var með leiknum og þú getur séð lýsinguna með því að smella hér.
Óskar Örn Hauksson kom KRingum yfir með marki á 5. mínútu. KR spiluðu sig vel upp hægri kantinn áður en þeir náðu að koma boltanum í teiginn þar sem endaði hjá Óskari sem skoraði af miklu öryggi. Þetta var ein af fáum sóknum í leiknum þar sem KR reyndu að spila sig í gegnum pressu Víkinga en þeir héldu sér við sinn iðnaðarbolta. 
KR pressuðu hátt fyrsta hálfltímann og neyddu Víkinga í langar sendingar sem voru þó að heppnast ágætlega. Varnarmenn KR eiga þó mikið hrós skilið fyrir að vera góðir 1 á 1 í þessum leik auk þess að vinna saman í að þétta vörnina. Þegar hálftími var búinn af fyrri hálfleik náðu Víkingar sér betur á strik og fóru að spila í gegnum KR vörnina sem var ekki lengur að pressa jafn mikið og í upphafi leiks.
 
Víkingur fengu einhver færi þarna á lokakorterinu í fyrri hálfleik en náðu ekki að nýta neitt af þeim. Sölvi Geir Ottesen og Nikolaj Hansen voru báðir með hörkuskalla í átt að marki KRinga eftir hornspyrnur frá Loga Tómassyni. Óskar Örn Hauksson fékk frábært færi til að bæta í foyrstu KR rétt fyrir hálfleikinn þegar hann brunaði upp hægri vænginn en Þórður varði vel í marki Víkinga. 
 
Óskar Örn var hættulegastur fram á við í liði KR í kvöld en í upphafi seinni hálfleiks tók hann tvo frábæra spretti upp kantinn. Í bæði skipti gaf hann boltann fyrir en Þórður Ingason var öflugur í teignum í kvöld. 
 
Á 54. mínútu var furðulegt atvik þar sem Þórður Ingason markmaður Víkinga var kominn út úr teignum til að stöðva skyndisókn KR. Stuðningsmenn og leikmenn KR vildu meina að hann hafi notað hendina til að ná valdi á boltanum en Pétur Guðmundsson dómari var ósammála og dæmdi ekki neitt. 
 
Víkingar voru meira með boltann fyrsta hálftímann í seinni hálfleik en náðu ekki að skapa nein hættuleg færi. Það voru frekar skyndisóknir KR sem voru líklegar til að verða að mörkum. KRingar fengu nokkur frábær færi til að bæta í forystuna en Logi Tómasson bjargaði til dæmis á línu eftir tæpan klukkutíma af leiknum. 
 
Á 76. mínútu þegar Víkingar voru að eiga líklega sinn besta kafla í leiknum fékk Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkinga rautt spjald fyrir brot í teig KRinga. Þetta atvik snéri leiknum alveg en Víkingar gátu ekki haldið sömu pressu varnarlega þegar þeir voru manni færri. Þá fóru KRingar fyrst virkilega að banka á dyrnar en náðu þó aldrei að bæta í forystuna. 
 
Af hverju vann KR?
Vörnin hjá KR var frábær í þessum leik. Víkingar náðu ekki að skapa sér nein dauðafæri í seinni hálfleik þegar KR lögðust tilbaka. Það er alltaf gaman að spila fallegan fótbolta en það breytir engu hvað þú tekur marga þríhyrninga á eigin vallarhelming ef þú getur ekki valdið usla hjá markinu sem þú átt að skora í. 
 
Hverjir stóðu upp úr?
Óskar Örn Hauksson var hættulegasti leikmaður KR sóknarlega í kvöld. Aðrir áttu eitt og eitt móment þar sem þeir sköpuðu eitthvað en það var hætta í hvert einasta skipti liggur við sem Óskar Örn náðu að snúa í átt að marki Víkinga. 
 
Víkingar sóttu mikið upp vinstri kantinn en Kennie Chopart náðu oftar en ekki að stoppa sóknirnar áður en þær komust inn í teiginn. Logi Tómasson var besti maður Víkinga í leiknum en sóknin var mikið byrjuð að fara í gegnum hann í seinni hálfleik auk þess sem hann átti nokkrar frábærur spyrnur í föstum leikatriðum. Síðan bjargaði hann líka frábærlega á línu einu sinni. 
 
Hvað gekk illa?
Framherjar Víkings í leiknum þeir Nikolaj Hansen og Rick Ten Voorde komust nægilega vel inn í leikinn. Ef Víkingar ætla að byrja að safna stigum í þessari deild þurfa þessir menn að stíga upp. 
 
Hvað gerist næst?
Víkingur fara til Gríndavíkur á laugardaginn næsta þar sem þeir geta sótt sinn fyrsta sigur í sumar. Leikurinn hefst klukkan 16:00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. KR fá KA í heimsókn á sunnudaginn klukkan 16:00.
 

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. vísir/bára

Rúnar um mál Björgvins: „Mér finnst þetta fáránleg umræða“
„Við unnum leikinn og ég er ánægður með það. Við hefðum alveg getað spilað betur út úr þessu, sérstaklega í síðari hálfleik,” sagði Rúnar Kristinsson þjálfari KR um frammistöðuna í leiknum.

Víkingar voru heilt yfir meira með boltann í leiknum og KR komust ekki í mikið af góðum færum í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik vantaði nokkrum sinnum bara herslumuninn uppá hjá þeim í sókninni.

„Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi, Víkingar voru meira með boltann og eru mjög vel spilandi. Gaman að fylgjast með þeim en við eigum bara að refsa þeim í síðari hálfleik og skora fleiri mörk. Við fáum fullt af fínum möguleikum í skyndisóknum til að refsa þeim sem við gerum ekki. Þetta er búið að vera smá vandamál hjá okkur undanfarið sem við þurfum að laga.”

Í seinni hálfleik voru KR mikið að verjast aftarlega á vellinum og leyfðu Víkingum að vera með boltann.

„Planið í hálfleik var bara að leyfa þeim að hafa boltann og leggjast aðeins niður og beita skyndisóknum. Mér fannst það heppnast mjög vel, þeir náðu ekkert að skapa og ekkert að opna okkur. Þeir voru aðallega að reyna langa bolta inn í teiginn og þeir náðu kannski að spila sig út úr fyrstu pressunni okkar en það var aldrei hætta.”

„Kennie er búinn að vera mjög góður í hægri bakvarðarstöðunni. Hann er með ágætis aðstoð líka frá Pálma í fyrri hálfleik og síðan Atla í síðari hálfleik. Við erum bara ánægðir með hans frammistöðuna, sérstaklega er hann ógnandi sóknarlega og hjálpar okkur þar líka,” sagði Rúnar um Kennie Chopart sem átti stórleik úr bakvarðarstöðunni í kvöld.

Í uppbótartíma sparkaði Finnur Orri Margeirsson leikmaður KR boltanum útaf og vildi fá aðhlynningu. Hann gleymdi hinsvegar að leggjast niður svo Víkingar brunuðu bara í sókn, þetta hefðu getað verið dýrkeypt mistök fyrir KR en þeir sluppu með skrekkinn.

„Finnur gerir mistök í að setja boltann bara útaf, maður verður að leggjast niður líka. Það þýðir ekkert að sparka boltanum útaf og standa síðan bara. Þetta er bara klaufaskapur hjá okkur og honum. Þetta er ekkert sem á eftir að draga einhvern dilk á eftir sér. Þetta var bara klaufaskapur hjá okkur og við vorum bara heppnir að þeir refsuðu okkur ekki.”

Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkinga fékk rautt spjald á 76. mínútu eftir að hafa gert eitthvað af sér í baráttu í teignum. Það sáu ekki margir hvað gerðist en þetta atvikaðist þegar boltinn var ekki nálægt og þar af leiðandi voru flestir að horfa annað.

„Því miður þá sá ég það ekki og hef ekki haft tækifæri til að ræða við mína menn um það hvernig það atvikaðist. Hvort það hafi verið rétt eða rangt en dómarinn fer nú ekki að lyfta rauðu spjaldi án þess að hafa séð eitthvað.”

Sóknarleikur KR var á köflum í leiknum óáhugaverður en það voru ekki margir leikmenn KR sem þorðu að spila boltanum mikið gegn hápressu Víkinga.

„Við þurftum kannski að vera aðeins rólegri á boltanum. Þora að halda boltanum og spila meira, við vorum kannski full ákáfir í að sparka fram, hreinsa og verja markið okkar. Frekar en í einstaka tilfellum að reyna að spila út úr pressunni þeirra.”

Björgvin Stefánsson leikmaður KR lét úr sér óviðeigandi ummæli varðandi kynþátt á meðan hann var að lýsa leik Hauka og Þróttar í Inkasso-deild karla á fimmtudaginn. Málið er búið að vera mikið á milli tannanna á fólki og verið mikið umtalað í fjölmiðlum.

„Fjölmiðlar dæma hann ekkert í bann. Þeir eru búnir að ýja þetta mál upp verulega. Þetta er bara klaufaskapur í Björgvini. Hann ætlaði að reyna að vera fyndinn en það misheppnast svo hrapallega. Hann áttar sig á því alveg um leið og hann er búinn að biðjast afsökunar á þessu.”

Í fjölmiðlum er búið að fjalla mikið um að hann gæti farið í 5 leikja bann. Rúnar var gríðarlega óánægður með þessa nálgun hjá fjölmiðlum.

„Við verðum bara að sjá hvað kemur út úr þessu máli. Þetta er leiðinlegt og KRingum finnst þetta öllum leiðinlegt. Ég vill fyrir hönd félagsins biðjast afsökunar. Þetta er bara ungur drengur sem er að lýsa fótboltaleik. Ekki undir merkjum KR, hann er fyrrverandi Haukamaður að hjálpa þeim með lýsingu þar sem hann þykir hnittinn og skemmtilegur.”

Það á eftir að koma í ljós hvort hann verði settur í bann en aganefndin hittist ekki fyrr en í næstu viku. Það væri þó mjög dýrt fyrir KR að missa Björgvin út í marga leiki en hann er búinn að skora 3 mörk í fyrstu 6 leikjum liðsins.

„Hann varð aðeins á í messunni og fattaði það alveg um leið og hætti þessari lýsingu sinni. Gekk út úr staðnum þar sem hann var að lýsa og hringdi í mig. Hann var mjög leiður og strax búinn að biðjast afsökunar. Menn ættu bara að taka þeirri afsökunarbeiðni og halda áfram með lífið sitt frekar en að vera að gera alltof mikið úr þessu.”

„Auðvitað á þetta aldrei að heyrast og á ekki að vera uppi á yfirborðinu. Við munum tala við hann og við erum búnir að tala við hann. Þetta eru bara mistök sem hann gerði og hann mun læra af þeim.”

Tvö sambærileg mál hafa komið upp nú þegar á þessu tímabili. Munurinn á þeim atvikum og þessu er að þar voru leikmenn að spila leiki og sögðu sín ummæli. Þórarinn Ingi Valdimarsson leikmaður Stjörnunnar fékk beint rautt spjald í leik í lengjubikarnum gegn Leikni fyrir niðrandi ummæli um geðsjúkdóma í garð Ingólfs Sigurðssonar. Pétur Viðarsson fékk sömuleiðis rautt spjald í 4. umferð Pepsi Max deildarinnar fyrir að kalla línuvörð leiksins þroskaheftan. Hvorugur leikmaður fékk meira bann en þann eina leik sem fylgir rauðu spjaldi.

„Ég get ekki ímyndað mér hvernig hann fer í 5 leikja bann þegar aðrir leikmenn hafa ekki farið í bönn fyrir sömu hluti. Hvort sem það er dökkur á hörund, á einhvern veginn skertur eða veikur á geði. Ég sé engan mun þar á. Það á ekki að líðast að svona hlutir séu gerðir og það á ekki að tala svona. Við reynum að ala það upp í okkar leikmönnum.”

„Ef aðrir hafa ekki fengið leikbönn fyrir slíkt hið sama þá get ég ekki séð hvernig Björgvin á að fá langt leikbann.  Mér finnst þetta bara fáranleg umræða og í fjölmiðlum er búið að heyrast að minnsta kosti 5 leikir. Í reglunum stendur allt að 5 leikir og ég vona bara að nefndin taki afsökunarbeiðni Björgvins og haldi bara áfram með lífið. Við þurfum ekki að vera að velta okkur of lengi upp úr þessu.”

Þarf KSÍ að setja meiri línu í svona málum?

„Þeir hafa ekki sett hana í síðustu tveimur málum. Ætla þeir að fara að fara að setja hana núna allt í einu. Á einhverjum tímapunkti þarf eitthvað að gerast en það þarf bara að fylgja reglum og lögum. Þeir þurfa bara að finna út úr því hvað þeir gera.”

Arnar: Einföld stærðfræði

„Við náttúrulega skorum ekki mark en fáum á okkur mark. Það er einföld stærðfræði og þýðir tap. Þetta var mjög skrítinn leikur að mörgu leyti. KRingar bökkuðu mikið og létu okkur hafa boltann. Við stýrum leiknum að einhverju leyti en það vantaði kannski dauðafærið uppá að klára leikinn,” sagði Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings aðspurður hvað hafi vantað uppá í leiknum.   

„Þetta var flottur leikur á okkar hálfu. Við áttum að fá einhver stig út úr honum. Mér fannst þetta vera gott tækifæri til að vinna KRingana í dag. Þeir voru mjög sjaldan með boltann í leiknum. Óvenju sjaldan af svona góðu liði.”

Víkingar voru meira með boltann í upphafi seinni hálfleiks en KRingar voru þéttir tilbaka.

„Við herjum og herjum á þá en þá kemur brottreksturinn. Þá erum við einum færri og þá er þetta dálítið erfitt. Heilt yfir er ég dálítið svekktur þar sem það var tækifæri til að vinna KRingana hér í dag. Við náðum virkilega vel að loka á allar þeirra færslur og við náðum að vera mikið meira með boltann án þess þó að fá afgerandi dauðafæri.”

Þið hafið lagt upp með að spila mikið meðfram jörðinni á þessu tímabili en í upphafi leiks voruð þið meira að negla fram. Var það upplagið?

„Það var upplagið, vörnin þeirra var komin mjög ofarlega. En ég myndi ekki nota orðalagið að negla fram, frekar sendingar fram. Þessar sendingar voru á kantmenn sem að fengu mjög mikið pláss.”

„Ég veit ekki hversu oft Guðmundur Andri fékk pláss 1 á 1 á móti Kennie. Við hefðum kannski átt að nýta þær stöður miklu betur. Við það færðist leikur KR dálítið aftur á bak. Þá fengum við pláss til að spila okkar leik svo þetta er allt samkvæmt áætlun.”

Sölvi Geir Ottesen fyrirliði Víkings fékk rautt spjald á 76. mínútu. Arnar sá ekki hvað gerðist en var þó eitthvað efins með brottreksturinn.

„Ég talaði við Sölva eftir leikinn og fór út í klefa og spurði hvað hefði gengið á. Þetta voru bara venjulegar stimpingar á milli leikmanna. Menn eru bara að koma sér í leikstöður og skapa sér stöður sem hefur gerst síðan að fótbolti var fundinn upp fyrir 100 árum síðan.”

„Hann sagði bara að hann hafi ekki snert hann viljandi. Þetta er heiðarlegur drengur hann Sölvi og ég trúi honum. Það gæti vel verið að höndin hafi farið í andlitið á honum og þá er það óviljaverk. Það er gríðarlega svekkjandi að missa hann útaf í þessari stöðu þar sem við vorum farnir að herja verulega á KRingana. Síðan var þetta bara erfitt 11 á móti 10.”

Víkingar tefla fram mjög ungu og efnilegu liði. Ungir menn eiga þó til með að gera mistök sem er ansi dýrt í efstu deild.

„Það eru kostir og gallar við að vera með svona unga leikmenn. Við vorum með þrjá stráka fædda árið 2000 í byrjunarliðinu, við vorum með tvo fædda 1999 og einn 1998. Við það að hafa ungt lið þá færðu inn á milli mistök.”

„Menn þurfa að læra en menn þurfa að læra mjög fljótt. Þetta er fullorðins heimur og fullorðins fótbolti. Menn þurfa að læra fljótt hvernig á að vinna leiki og hala inn stigum og hvernig þeir eiga að vera klókir eins og KRingarnar í dag. Þeir voru mjög klókir.”

Víkinga vantar breidd í leikmannahópinn en Arnar var hreinskilinn með það í fjölmiðlum að hann vildi sækja Helga Guðjónsson framherja Fram rétt fyrir seinustu gluggalok. Þess vegna er líklegt að Víkingar sæki liðsstyrk þegar glugginn opnar upp á nýtt í júlí.

„Við erum alltaf að skoða. Við vitum alveg hvar okkur vantar leikmenn. Við erum bara að reyna að herja á það áður en glugginn opnar 1. júlí. Við þurfum breidd og við þurfum bara fleiri líkama til að hjálpa okkur. Ég hef engar áhyggjur af þessu liði við erum að sýna það í öllum þessum leikjum að við erum með fínasta lið en þetta er bara ekki alveg að falla með okkur. Við þurfum bara aðeins vera rólegir og anda með nefinu, þá fara stigin að koma.”

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.