Íslenski boltinn

Brynjar Björn: Hef engar áhyggjur af framherjunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Brynjars Björns hafa náð í öll sín fimm stig í Pepsi Max-deildinni á heimavelli.
Strákarnir hans Brynjars Björns hafa náð í öll sín fimm stig í Pepsi Max-deildinni á heimavelli. vísir/bára
„Ég er sæmilega sáttur með stigið en við hefðum getað unnið leikinn í seinni hálfleik. Sá fyrri var jafn en mér fannst við eiga meiri möguleika í þeim seinni,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, í samtali við Vísi eftir markalaust jafntefli gegn Grindavík í Kórnum í dag.

Leikurinn var rólegur og hvorugt liðið tók mikla áhættu. En hefði HK getað gert meira til að vinna leikinn?

„Nei, við reyndum eins og við gátum. Grindavík spilar sterka vörn. Þeir spila aftarlega og það er erfitt að komast aftur fyrir vörnina þeirra. Við reyndum að fá boltann út á kantana og fá fyrirgjafir en Grindavík varðist vel,“ sagði Brynjar Björn.

Brynjar Jónasson og Emil Atlason, framherjar HK, hafa ekki skorað það sem af er tímabili. Brynjar Björn kveðst ekki vera órólegur yfir markaleysi þeirra.

„Ég hef engar áhyggjur af þeim. Þeir vinna vel og leggja mikið á sig. Ef þeir halda því áfram koma mörkin,“ sagði Brynjar Björn.

Næsti leikur HK er gegn Breiðabliki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

„Við förum yfir þennan leik á morgun. Svo reynum að ná sem mestri hvíld og undirbúa okkur sem best fyrir leikinn gegn Blikum,“ sagði Brynjar Björn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×