Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: HK - Grindavík 0-0 | Bragðdauft og markalaust í Kórnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásgeir Marteinsson var tvisvar nálægt því að skora í seinni hálfleik.
Ásgeir Marteinsson var tvisvar nálægt því að skora í seinni hálfleik. vísir/vilhelm
HK og Grindavík gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik 6. umferð Pepsi Max-deildar karla að viðstöddu fámenni í Kórnum.

Leikurinn var jafn; Grindavík ívið betri í fyrri hálfleik en HK í þeim seinni.

René Joensen var hættulegastur Grindvíkinga í leiknum en Ásgeir Marteinsson var tvívegis nálægt því að skora fyrir HK í seinni hálfleik.

Grindavík hefur nú leikið fimm leiki í röð án þess að tapa og haldið hreinu í tveimur leikjum í röð. Grindvíkingar eru í 5. sæti deildarinnar með níu stig.

HK, sem er ósigrað í Kórnum í sumar, er í 9. sætinu með fimm stig.

Af hverju varð jafntefli?

Bæði lið virkuðu frekar lúin, sérstaklega eftir því sem leið á leikinn sem náði aldrei neinu flugi.

Grindavík var ögn sterkari í fyrri hálfleik og Joensen kom sér í nokkur hálffæri. Kári Pétursson komst næst því að skora fyrir HK þegar skot hans smaug framhjá fjærstönginni.

Seinni hálfleikurinn var enn rólegri en sá fyrri. HK átti ágætis kafla um miðbik seinni hálfleiks og Ásgeir átti tvo skot sem Vladan Djogatovic, góður markvörður Grindavíkur, varði vel.

Hverjir stóðu upp úr?

Ásgeir Börkur Ásgeirsson var eins og naut í flagi á miðjunni og vann fullt af boltum. Björn Berg Bryde átti einnig fínan leik í vörninni gegn sínum gömlu félögum og Ásgeir vaknaði til lífsins í seinni hálfleik.

Joensen var hættulegur í fyrri hálfleik og Elias Tamburini átti góða spretti á vinstri kantinum. Þá var Djogatovic öryggið uppmálað í marki Grindjána; varði skotin tvo frá Ásgeiri og hirti allar fyrirgjafir sem komu inn á vítateig Grindavíkur. Miðverðir Grindavíkur, þeir Marc McAusland og Josip Zeba, voru einnig sterkir eins og þeir hafa verið í byrjun móts.

Hvað gekk illa?

Það var lítill broddur í sóknarleik liðanna. Það sem af er tímabili hafa HK-ingar aðallega ógnað á hægri kantinum og eftir föst leikatriði. Þeir misstu Birki Val Jónsson af velli í fyrri hálfleik sem kom mikið niður á sóknarleik heimamanna. Þá vörðust Grindvíkingar föstu leikatriðum HK-inga vel.

Framherjar HK, þeir Brynjar Jónasson og Emil Atlason, voru að venju duglegir en aldrei líklegir til að skora. Þeir hafa ekki enn komið boltanum yfir línuna á tímabilið og það er spurning hvenær þolinmæðin gagnvart þeim þrýtur.

Joensen var hættulegur en aðrir í framlínu Grindavíkur voru ósýnilegir.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í næstu viku. HK mætir Breiðablik í grannaslag á meðan Grindavík fær 2. deildarlið Vestra í heimsókn.

Næstu deildarleikir liðanna eru um næstu helgi. Á laugardaginn tekur Grindavík á móti Víkingi og degi síðar fær HK Fylki í heimsókn.

Beina textalýsingu frá leiknum má sjá með því að smella hér.

Brynjar Björn: Áttum meiri möguleika í seinni hálfleik

„Ég er sæmilega sáttur með stigið en við hefðum getað unnið leikinn í seinni hálfleik. Sá fyrri var jafn en mér fannst við eiga meiri möguleika í þeim seinni,“ sagði Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK, eftir markalaust jafntefli gegn Grindavík í Kórnum í dag.

Leikurinn var rólegur og hvorugt liðið tók mikla áhættu. En hefði HK getað gert meira til að vinna leikinn?

„Nei, við reyndum eins og við gátum. Grindavík spilar sterka vörn. Þeir spila aftarlega og það er erfitt að komast aftur fyrir vörnina þeirra. Við reyndum að fá boltann út á kantana og fá fyrirgjafir en Grindavík varðist vel,“ sagði Brynjar Björn.

Brynjar Jónasson og Emil Atlason, framherjar HK, hafa ekki skorað það sem af er tímabili. Brynjar Björn kveðst ekki vera órólegur yfir markaleysi þeirra.

„Ég hef engar áhyggjur af þeim. Þeir vinna vel og leggja mikið á sig. Ef þeir halda því áfram koma mörkin,“ sagði Brynjar Björn.

Næsti leikur HK er gegn Breiðabliki í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

„Við förum yfir þennan leik á morgun. Svo reynum að ná sem mestri hvíld og undirbúa okkur sem best fyrir leikinn gegn Blikum,“ sagði Brynjar Björn að lokum.

Túfa: Sáttur að hafa ekki tapað

Srdjan Tufegdzic, þjálfari Grindavíkur, var nokkuð sáttur með stigið sem hans menn fengu í Kórnum í dag.

„Miðað við allt er ég sáttur við stigið og að hafa ekki tapað og haldið hreinu,“ sagði Túfa eftir leik.

„Mér fannst bæði lið þreytt og það sást að þessi þunga leikjadagskrá situr í mönnum. En bæði lið gáfu allt í þetta. Það er ekkert auðvelt að koma hingað og ná í stig.“

Grindavík hefur leikið fimm leiki í röð án þess að tapa og haldið hreinu í síðustu tveimur leikjum sínum.

„Ég er mjög ánægður. Það sést að menn eru að læra á hvorn annan. Þetta tekur alltaf tíma þegar þú ert með nýja varnarlínu og nýjan markvörð,“ sagði Túfa.

Vladan Djogatovic hefur reynst mikill happafengur fyrir Grindavík en hann hefur staðið sig vel í marki liðsins og aðeins fengið á sig sex mörk í sex fyrstu umferðunum.

„Vladan og hinir sem komu fyrir mót hafa staðið sig vel. Heilt yfir er ég ánægður með strákana. Ég er alltaf að endurtaka mig en þeir gefa allt í þetta og eru til fyrirmyndar. Ég get ekki beðið um meira,“ sagði Túfa að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira