Erlent

Týndi göngumaðurinn: „Ég valdi að lifa“

Sylvía Hall skrifar
Eller dvelur nú á sjúkrahúsi.
Eller dvelur nú á sjúkrahúsi. Skjáskot
Amanda Eller, göngumaðurinn sem fannst á lífi eftir að hafa verið saknað í tvær vikur, segir dagana sem hún dvaldi í skógi á eyjunni Maui hafa verið þá erfiðustu sem hún hefur upplifað. Tíminn þar hafi verið andleg þrekraun.  

„Það komu tímar þar sem ég upplifði algjöran ótta og vildi gefast upp og þetta var á tímapunkti spurning um líf og dauða – ég þurfti bara að velja,“ segir Eller í viðtali sem birtist á Facebook-síðu sem tileinkuð var leitinni að henni. Hún segist hafa valið að lifa.

Eller segir það hafa hlýjað henni um hjartarætur að sjá hvernig samfélagið á eyjunni sameinaðist í því að leita að henni. Það sé ótrúlegt að sjá hverju hægt sé að áorka þegar allir stilla saman strengi sína og vinna að sameiginlegu markmiði.

Það var á föstudag sem leitarhópur kom auga á Eller í skógi eftir að hún hafði veifað til þeirra. Fjölskylda hennar hafði sett saman leitarhóp og voru það sjálfboðaliðar sem fundu hana að lokum.

Eller er í góðu standi eftir dvölina í skóginum en hún hélt sér á lífi með því að safna saman berjum sem hún fann í skóginum og drekka vatn úr lækjum. Hún hafði grennst töluvert á meðan dvölinni stóð og var slösuð á fótum enda hvorki í skóm né sokkum. Sem stendur er Eller á sjúkrahúsi en ekki hefur verið ákveðið hversu lengi hún mun þurfa að dvelja þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×