Enski boltinn

Enskt vor eins og það hefur aldrei sést áður í sögu fótboltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er þegar orðið öruggt að ensk lið vinna þessa tvo eftirstóttu bikara í ár.
Það er þegar orðið öruggt að ensk lið vinna þessa tvo eftirstóttu bikara í ár. Samsett/Getty

Ensku liðin Tottenham, Liverpool, Chelsea og Arsenal komust öll í úrslitaleik í Evrópukeppni í ár og skrifuðu með því nýjan kafla í sögu Evrópukeppnanna.

Það hefur vissulega komið fyrir áður að lið frá sama landi mætist í úrslitaleik í Evrópukeppni en þetta er í fyrsta sinn sem sama þjóð á öll fjögur liðin í úrslitaleikjunum tveimur.Tottenham og Liverpool mætast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madrid og Chelsea og Arsenal mætast nokkrum dögum fyrr í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Það var mikil dramatík í kringum sigurleiki Tottenham, Liverpool og Chelsea en Arsenal átti ekki í miklum erfiðleikum með spænska liðið Valencia.
Það hafa verið tveir enskir úrslitaleikir áður í sögu Evrópukeppninnar en Tottenham vann Wolves í úrslitaleik UEFA-bikarsins 1972 og vorið 2008 mættust Manchester United og Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Moskvu.

Spánn hafði komist næst þessu með því að eiga þrjú af fjórum liðum í úrslitaleikjunum 2016 en Real Madrid vann þá Atletico Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og Sevilla vann Evrópudeildina.„Getustigið er mjög hátt í Englandi og enska úrvalsdeildin er besta deildin í Evrópu,“ sagði Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir sigur á Eintracht Frankfurt í vítakeppni á Stamford Bridge í gærkvöldi.

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar fer fram í Bakú í Aserbaísjan sem er í tæplega fjögur þúsund kílómetra fjarlægð frá London. Það er langt að fara fyrir stuðningsmenn liðanna en UEFA var heldur ekki að láta Chelsea eða Arsenal fá marga miða á leikinn.

Leikvangurinn tekur meira en 68 þúsund manns en Chelsea og Arsenal fá aðeins sex þúsund miða hvort félag. Stuðningsmenn Chelsea og Arsenal verða því aðeins rúmlega sautján prósent áhorfenda á leiknum sem er galin staðreynd.

Þessi árangur ensku liðanna þýðir að það munu tvö ensk lið mætast í Súperbikar UEFA í haust en þar mætast alltaf liðin sem vinna Meistaradeildina og Evrópudeildina. Sá leikur fer fram í Istanbul í Tyrklandi.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.