Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - KA 3-2 | Halldór Orri hetja FH eftir að KA virtist ætla að stela stigi

Runólfur Trausti Þórhallssn skrifar
vísir/bára
FH vann KA í markaleik í Kaplakrika í kvöld þar sem Halldór Orri Björnsson reyndist hetja leiksins. Lokatölur 3-2 heimamönnum í vil.

FH-ingar byrjuðu leikinn mikið mun betur og voru með öll völd á vellinum í fyrri hálfleik. Fyrsta mark leiksins kom strax á 6. mínútu þegar Halldór Orri Björnsson renndi knettinum í netið eftir að Aron Dagur Birnuson, markvörður KA, hafði varið gott skot Björns Daníels Sverrissonar til hliðar.

FH-ingar héldu áfram að sækja nær allan fyrri hálfleikinn en náðu þó aldrei að komast í 2-0. Staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. Í þeim síðari voru það KA menn sem byrjuðu betur en Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði frábært mark beint úr aukaspyrnu þegar aðeins átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

KA hélt áfram að sækja og á 65. mínútu leiksins kom Elfar Árni Aðalsteinsson þeim yfir þegar hann renndi sér á sendingu frá Hallgrími Mar. Við það lenti hann á Gunnari Nielsen, markverði FH, sem þurfti að fara út af í kjölfarið. Óvíst er hversu illa meiddur Gunnar er.

Eftir þetta féllu leikmenn KA til baka í skotgrafirnar og FH sótti án afláts. Þeir vildu fá vítaspyrnu þegar Haukur Heiðar Hauksson virtist brjóta af sér innan vítateigs. Aukaspyrna dæmd og úr henni þrumaði Björn Daníel í hendina á Torfa Tímoteus Gunnarsson og Einar Ingi Jóhannesson, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu.

Björn Daníel fór á punktinn og skoraði af öryggi. Staðan orðin 2-2 og 15 mínútur til leiksloka. Það var svo þremur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma sem Björn Daníel renndi knettinum í gegnum vörn KA á Halldór Orra sem lagði hann meðfram jörðinni fram hjá Aroni Degi í markinu og staðan orðin 3-2 heimamönnum í vil.

Reyndust það lokatölur og FH því enn taplaust í deildinni.

FH-ingar fagna í kvöld.vísir/bára
Af hverju vann FH?

Þeir voru frábærir í fyrri hálfleik og eftir erfiða byrjun í síðari hálfleik sýndu þeir mátt sinn og megin. Mikill karakter FH-inga skilaði þessum sigri og að sama skapi reynsluleysi KA en Hallgrímur Jónasson sat allan tímann á varamannabekknum, líklega enn meiddur. Þá fór Haukur Heiðar Hauksson út af rétt áður en FH skorar sigurmarkið. Það munar um minna.

Hverjir stóðu upp úr?

Björn Daníel var frábær í liði heimamanna. Potturinn og pannan í sóknarleik þeirra. Þá var Halldór Orri frábær sem fölsk nía í fyrri hálfleik og hann stakk sér svo í gegnum miðja vörn KA til að skora sigurmarkið þrátt fyrir að vera kominn á vænginn á þeim tímapunkti.

Hjá KA stóð Hallgrímur Mar upp úr en hann var allt í öllu í sóknarleik þeirra. Eflaust besti spyrnumaður landsins.

Hvað gekk illa?

Báðum liðum gekk illa að halda hreinu og halda forystu. FH var með tögl og haldir í fyrri hálfleik en missti forystuna og lentu undir. Sama má segja um KA. Loksins þegar þeir komust yfir þá fór allt á versta veg og þeir fengu tvö mörk í andlitið.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik nú á miðvikudaginn kemur þann 15. maí. FH fer upp á Skaga og heimsækir þar sprækt lið ÍA á meðan KA færi Breiðablik í heimsókn.

Óli á hliðarlínunni í kvöld.vísir/bára
Óli Stefán: „Eigum bara að halda áfram að sækja“

„Ég er mjög pirraður og reiður. Eins og ég sagði við strákana inn í klefa þá hlýtur það að vera gott því okkur finnst við hafa verðskuldað eitthvað úr þessum leik. Sérstaklega eftir að hafa lifað af fyrstu 20 mínúturnar þar sem við vorum slakir og ragir að gera eitthvað við boltann. En við komumst vel inn í leikinn og vorum með yfirhöndina stóran hluta síðari hálfleiks,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, aðspurður hvernig honum liði í leikslok eftir gríðarlega svekkjandi 3-2 tap KA gegn FH í Kaplakrika fyrr í kvöld.

Óli Stefán var ekki sáttur með það hvernig leikmenn KA spiluðu eftir að þeir komust yfir.

„Það er kannski einkenndi fyrir minni lið, segi ég innan gæsalappa, að fara að verja eitthvað þegar þau komast yfir á útivelli gegn þessu liði. Það er eitthvað sem við verðum að draga lærdóm af.“

„Þetta getum við tekið með okkur inn í framhaldið, að við eigum bara að halda áfram að sækja. Halda í okkar „identity“ og okkar leik. Þá hefðum við klárað þennan leik. Við fórum hins vegar í það að droppa niður og verja eitthvað sem var ekki komið og það er eitthvað sem við verðum að laga.“

„Þetta er kannski hálfgerður óþroski en þú sérð þetta víðsvegar þegar menn komast yfir að þeir ætli að bakka og verja eitthvað en það er ekki eitthvað sem við viljum gera. Við viljum stýra leikjum og þjarmað að þessum toppliðum,“ sagði Óli Stefán að lokum.

Ólafur Kristjánsson í kvöld.vísir/bára
Ólafur Helgi: „Hefðum líklega gert jafntefli eða tapað þessum leik í fyrra“

„Frábær karakter að grafa sig upp úr smá holu og koma sér inn í leikinn og vinna hann. Byrjum vel og það er mikill kraftur en svo missum við tökin á þessu. KA liðið er gott, skipulagt og komnir í 2-1 forystu. Við vorum svo bara frábærir í restina og sýndum mjög sterkan karakter til að jafna og vinna leikinn. Við hefðum við líklega gert jafntefli eða tapað þessum leik í fyrra,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari FH, aðspurður út í sín fyrstu viðbrögð eftir leik.

Ólafur vildi þó ekki kenna Elfari Árna um meiðsli Gunnars Nielsen en markvörðurinn þurfti að yfirgefa völlinn eftir að Elfar kom KA 2-1 yfir.

„Ég held hann fái högg á hendina, algjört slys eflaust. Elfar Árni er góður drengur og er ekki að meiða neinn. Ég held að Gunnar hafi fengið högg á handarbakið og var ansi bólginn og þurfti að fara út. Það er eins og í Víkings leiknum um daginn, þegar við missum mann út þá rísa aðrir upp og menn standa saman.“

„Ég er mjög sáttur með byrjunina. Erum búnir að spila prýðilega í vel flestum leikjunum. Þurfum kannski að fara spila vel heila leiki frekar en hálfleik og hálfleik en það er rosalega þétt spilað og það er farið að taka verulega í hópinn,“ sagði Ólafur Helgi að lokum en var þó viss um að FH myndi nú í fullan bekk í leiknum gegn ÍA á miðvikudaginn kemur.

Halldór Orri fagnar eftir leikinn í kvöld en hann skoraði tvö mörk.vísir/bára
Halldór Orri: „Léttir og ánægja að ná þremur stigum“

„Gríðarlegur léttir að ná að landa þessum þremur stigum. Lentum 2-1 undir svo það er mikill léttir og ánægja að ná þremur stigum,“ sagði Halldór Orri himinlifandi í leikslok en hann skoraði tvö marka FH í kvöld. Þar á meðal sigurmarkið en hann hóf leikinn sem fremsti maður FH liðsins.

„Þetta er ekki staða sem ég hef spilað alltof oft yfir ferilinn en þó eitthvað. Þetta var ákveðin taktík hjá Óla og ég kvarta ekki yfir því að ná að skora tvö. Reyndar kominn á kantinn þegar ég skora annað markið en þetta var gríðarlega skemmtilegt,“ sagði Halldór Orri sigurreifur í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira