Erlent

Kalla starfsmenn heim frá Írak

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna var í Írak í síðustu viku.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna var í Írak í síðustu viku. AP/Mandel Ngan

Yfirvöld Bandaríkjanna hafa skipað flestum starfsmönnum Utanríkisráðuneytisins í Baghdad og Ebril að yfirgefa Írak hið snarasta. Einungis hinir mikilvægustu starfsmenn verða ekki kallaðir heim. Ríkisstjórn Donald Trump lýsti því yfir í síðustu viku að bráð ógn frá Íran og sveitum sem studdar eru af Íran hefði greinst í Írak og nærliggjandi svæðum.

Á sunnudaginn var Bandaríkjamönnum ráðlagt að ferðast ekki til Írak.

Í yfirlýsingu sendiráðs Bandaríkjanna í Írak kemur ekki fram af hverju verið sé að grípa til þessara ráðstafana en fólki er þó ráðlagt að forðast skrifstofur og stofnanir Bandaríkjanna í landinu og er tekið fram að Bandaríkin hafi takmarkaða möguleika til að bregðast við neyðarástandi í Írak.

Spennan á milli Bandaríkjanna og Íran hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum dögum. Yfirvöld Sádi-Arabíu hafa sakað Írana um árásir gegn olíuframleiðslu í landinu og bandaríski herinn hefur verið á varðbergi gagnvart árásum frá vopnuðum sveitum sjíta í Írak sem yfirvöld Íran styðja.

Því hafa Bandaríkin sent flota á svæðið og fjölgað sprengjuflugvélum.

Breskur talsmaður bandalagsins gegn Íslamska ríkinu sagði þó í gær að engar upplýsingar lægju fyrir um aukna ógn frá þessum sveitum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.