Innlent

Út­varps­stjór­i viss­i ekki af á­form­um Hat­ar­a og tel­ur refs­ing­u ó­lík­leg­a

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Magnús Geir segist ekki telja að Íslandi verði refsað vegna fánamálsins.
Magnús Geir segist ekki telja að Íslandi verði refsað vegna fánamálsins. Samsett/RÚV
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir uppákomuna sem varð þegar Íslandi voru veitt stig í Eurovision í gær, þar sem liðsmenn Hatara héldu uppi klútum með palestínska fánanum, ekki hafa komið sér mikið á óvart. Hann hafi þó ekki vitað að slíkt stæði til. Hann segist ekki telja líklegt að Eurovision refsi Íslandi vegna málsins.

Uppákoman olli nokkru fjaðrafoki og hefur BBC eftir skipuleggjendum keppninnar að farið verði yfir atvikið á fundu framkvæmdastjórnar og Íslandi kunni að vera refsað sökum þess. Þá hafa netverjar farið mikinn vegna athæfis Hatara, þar sem sumir lýsa hrifningu sinni á meðan öðrum þykir vægast sagt lítið til uppátækisins koma.

„Ég vissi ekki af því að þetta stæði til, frekar en aðrir. Ég get hins vega ekki sagt að þetta komi mér algjörlega á óvart. Hatari hefur auðvitað ekki legið á sínum skoðunum og við vitum að þau hafa verið undir mikilli pressu að lýsa því á einhvern hátt,“ segir Magnús.

Hann bætir því við að þó að athæfi Hatara hafi ekki verið í takt við reglur Eurovision breyti það engu um þá staðreynd að hann sé gríðarlega stoltur af öllum sem að atriðinu komu, og framgöngu þeirra á sviðinu, sem og utan þess.

„Þau settu mikilvæg mál á dagskrá og voru sjálfum sér samkvæm.“

Hefur ekki heyrt frá Eurovision og telur litlar líkur á refsingu

Magnús Geir segir að ekki hafi verið haft samband við hann af hálfu Eurovision eða skipuleggjenda hennar vegna málsins. Hann sé rólegur vegna málsins og búist ekki við því að Íslandi verði refsað vegna atviksins, eins og sumir hafa velt upp.

„Mér finnst ekki ólíklegt að það verði gerð athugasemd við þetta, en ég er bara pollrólegur yfir þessu.“

Hann segir Íslendinga hafa valið sér afgerandi framlag til keppninnar í ár og segist afar ánægður með valið.

„Þetta er listrænn gjörningur og það er eðli listarinnar að hreyfa við og spyrja áleitinna spurninga og það gerðu Hatarar þetta árið með fullum stuðningi okkar allra sem völdum lagið. Síðan höfum við á RÚV kappkostað við að styðja við þau í þessum gjörningi og á sinni vegferð.“

Að lokum sagðist Magnús Geir gríðarlega ánægður með íslenska hópinn, bæði Hatara og starfsmenn RÚV sem að atriðinu komu. Hópurinn hafi verið sjálfum sér samkvæmur í sínum skoðunum og samanstandi af listafólki á heimsmælikvarða.


Tengdar fréttir

Ísraelsmenn fagna ekki Hatara

Fyrir tuttugu árum náði Selma Björnsdóttir þeim magnaða árangri að hreppa annað sætið í Eurovision þegar hún söng All Out of Luck. Þá var keppnin haldin í Jerúsalem.

Meðlimir Hatara skelkaðir eftir uppátækið

Fararstjóri íslenska hópsins í Eurovision segir einhverja meðlimi Hatara hafa verið skelkaða eftir að hljómsveitarmeðlimir héldu palestínska fánanum á lofti þegar tilkynnt var um stigin úr símakosningunni í beinni útsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×