Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - Grótta 2-1 │Fylkir slapp með skrekkinn

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
Fylkir vann góðan sigur á Gróttu í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins sem fram fór í dag. Leikurinn fór fram á Würth vellinum og eftir erfiðan leik náði Fylkir að klára Gróttu, 2-1.

 

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að Grótta ætlaði ekki að sýna Fylki neina virðingu. Þeir spiluðu sinn bolta sem er að gefa stutt frá markmanni og reyna opna svæði framar á vellinum. Fylkismenn neyddust til að pressa hátt sem gaf Gróttu mörg tækifæri.

 

Grótta byrjaði betur og Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis sagði í viðtali eftir leik að hann var ekki sáttur með byrjun sinna manna. Grótta komst yfir eftir aðeins 6 mínútur þegar Axel Sigurðarson átti frábæran sprett upp hægri vænginn, gaf boltann fyrir markið þar sem Aron Snær markvörður Fylkis misreiknaði fyrirgjöfina og Pétur Theódór Árnason skallaði boltann í autt markið.

 

Fylkismenn fóru þá að auka pressuna og þjarma betur að Gróttu og það skilaði sínu á 17.mínútu þegar Grótta gerði sig seka um mistök í uppspili sínu og misstu boltann rétt fyrir utan teig. Arnór Gauti Ragnarsson og Geoffrey Castillion áttu þá góðan samleik sem endaði með því að Arnór Gauti jafnaði leikinn, 1-1.

 

Restin af hálfleiknum var mjög skemmtilegur og færi á báða bóga en að lokum var jafnt þegar Pétur Guðmundsson flautaði til hálfleiks.

 

Það var ljóst að Helgi hefur sagt einhver vel valinn orð við sína menn í hálfleik en þeir voru mikið ákveðnari í byrjun seinni hálfleiks en áfram náðu þeir ekki að skora. Það kom þó loksins á 73.mínútu þegar Arnór Gauti bætti við sínu öðru marki.

 

Eftir þetta reyndu gestirnir sitt besta að þjarma að Fylkismönnum og átti Pétur Theódór meðal annars skalla í stöngina en því miður náðu þeir ekki að jafna leikinn. Leikurinn fjaraði út og Fylkismenn með góðan sigur á hörkuliði Gróttu.

 

Af hverju vann Fylkir?

 

Þeir eru í deild fyrir ofan og það er ekki að ástæðulausu. Þeir eru með mikil gæði og þeir náðu að refsa Gróttu þegar þeir gerðu mistök. Það vantaði lítið upp á hjá gestunum en þeir voru góðir í dag.

 

Hverjir stóðu upp úr?

 

Hjá heimamönnum var Arnór Gauti Ragnarsson öflugur en hann skoraði bæði mörk liðsins. Daði Ólafsson átti margar fínar hornspyrnur og var fínn. Hjá gestunum var Axel Freyr Harðarson að fara illa með bakverði Fylkis og markvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson varði vel á tíðum.

 

Hvað gekk illa?

 

Stutt spil Gróttu gekk vel lungann af leiknum en þeir gerðu sig þó nokkrum sinnum seka um mistök og þá var þeim oftast refsað með góðri sókn. Það skilaði einu marki fyrir Fylki og þau hefðu getað orðið fleiri.

 

Hvað gerist næst?

 

Fylkir fær ÍA í heimsókn í 2.umferð Pepsi Max deild karla næstkomandi sunnudag og með sigrinum í dag eru þeir komnir í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins. Grótta hefur lokið leik í bikarnum í ár en þeir hefja leik í Inkasso-deildinni næstkomandi sunnudag þegar þeir fara vestur í Ólafsvík.

 

 

Óskar Hrafn: Voru sjálfum sér og félaginu til sóma

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Gróttu var svekktur með tap sinna manna en var mjög stoltur með sitt lið eftir flotta frammistöðu.

 

„Ég er fyrst og fremst stoltur af liðinu mínu. Við töluðum um það fyrir leik að vera bara við í dag og gera það sem við höfum verið að gera undanfarna 18 mánuði og ekki fara á taugum á stóra sviðinu gegn frábæru Fylkisliði í beinni útsendingu og þeir gerðu það svo sannarlega ekki og voru frábærir frá fyrstu mínútu alveg til enda.”

 

Hann hafði engar áhyggjur af sínum mönnum þrátt fyrir mistökin sem þeir gerðu þegar þeir gáfu Fylki jöfnunarmarkið.

 

„Nei, við höfum gert þessi mistök svo oft að það var engin hætta á því að menn myndu fara á taugum. Það var kannski meira eftir annað markið þar sem okkur fannst illa að okkur vegið með meiddan mann inn á vellinum en við svöruðum því vel.”

 

„Ég segi líka að það er ekkert mál fyrir okkur að fá svona mörk á okkur, þetta er það sem við erum að gera. Óhjákvæmilega fylgir því að við gerum mistök og við borgum glaðir gjald í formi marka einstaka sinnum í stað þessa fínu samleikskafla sem við eigum í báðum hálfleikjum.”

 

Óskar sagði að þessi frammistaða gegn liði í deild fyrir ofan sé klárlega jákvæð teikn fyrir sumarið en liðið er nýliði í Inkasso-deildinni.

 

„Já hún er það. Kannski bara sérstaklega að leikmenn voru þeir sjálfir. Þeir voru hugrakkir, með kassann úti allan tímann en á sama tíma vitum við að við fáum ekkert fyrir það í Ólafsvík á sunnudaginn.”

 

„Það er nýr leikur á móti erfiðum andstæðingum sem er vel skipulagt lið en auðvitað er betra að standa sig vel. Sama hver horfði á þennan leik þá sáu menn að liðið var gott og þeir voru sér og félaginu til sóma.”

 

Óskar var að lokum spurður út í markmið sumarsins, hvort það væri eitthvað ákveðið sæti eða hvort að það væri frammistaðan sem skipti öllu.

 

„Við viljum spila flottan bolta, vera við sjálfir og vera betri í því. Fækka mistökunum að sjálfsögðu og svo vonandi koma góðir hlutir út úr því. Við viljum festa Gróttu í sessi sem Inkasso lið og liðið á best 10.sæti og sagan er kannski ekki með okkur en við viljum skrifa nýja sögu,” sagði Óskar að lokum.

 



Helgi Sig: Ef menn ætla vanmeta Gróttu þá lenda menn í vandræðum

Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis var sáttur með sigur sinna manna á liði Gróttu en Fylkismenn voru í miklu basli með Gróttu í dag sem sýndu mikla baráttu.

 

Hann sagði að það hafi aðallega verið seiglan sem skilaði sigri í dag.

 

„Það var aðallega seiglan, við gefumst ekkert upp en við mættum frekar slappir til leiks og þeir voru yfir fyrstu 15-20 mínúturnar og komust yfir. Það var bara sanngjarnt að mínu mati miðað við ganginn í þessu til að byrja með.”

 

„En við sýndum karakter undir lok fyrri hálfleiks og náum að jafna og síðan var þetta bara 50/50 í síðari hálfleik og spurning hvorum megin sigurinn myndi enda og sem betur fer endaði hann okkar megin.”

 

Helgi sagði að það væri erfitt að spila við lið eins og Gróttu en þeir náðu samt að refsa þeim þegar þeir ætluðu að spila stutt frá markinu.

 

„Já þeim gekk vel með sitt spil en við náðum að refsa þeim nokkrum sinnum og þá skapaðist hætta og fyrsta markið kemur frá mistökum í þeirra uppspili.”

 

„Þetta eru bara erfiðir leikir og lið Gróttu er bara vel skipulagt og ef menn ætla vanmeta lið eins og þá, þá lenda menn í vandræðum. Ekki það að við höfum vanmetið þá en það vantaði vissa stemningu hér í dag.”

 

Fylkir gerði 5 breytingar á byrjunarliði sínu frá sigrinum gegn ÍBV. Helgi sagði það skiljanlegt, stutt á milli leikja og gott að halda mönnum á tánum.

 

„Við erum með stóran og sterkan hóp og það voru nokkrir menn stífir eftir leikinn í eyjum. Blautt grasið þar og erfiðar aðstæður en Ragnar Bragi var í banni en að öðru leyti erum við með stráka sem komu vel inn í eyjum og við ákváðum að gefa þeim séns og þeir stóðu sig vel í dag.”

 

Fylkir tekur á móti ÍA í næstu umferð og Helgi sagði að hann ætti von á hörkuleik milli tveggja góðra liða.

 

„Það leggst vel í mig að fá skagann í heimsókn. Þeir eru með hörkulið og eru búnir að vera gera vel. Það má búast við því að þetta verði aðalleikur umferðarinnar og vonandi verður vel mætt hingað í Árbæinn,” sagði Helgi að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira