Enski boltinn

Stuðningsmenn Liverpool ósáttir með Lineker en hann biðst ekki afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gary Lineker og markið hjá Lionel Messi.
Gary Lineker og markið hjá Lionel Messi. Vísir/Samsett/Getty
Viðbrögð fjölmiðlamannanna Gary Lineker og Rio Ferdinand við aukaspyrnumarki Lionel Messi á móti Liverpool í Meistaradeildinni á miðvikudagskvöldið fóru fyrir brjóstið á mörgum stuðningsmönnum Liverpool.

Lineker og Ferdinand voru að fjalla um leikinn fyrir enskt sjónvarp og ættu því að öllu eðlilegu að halda með enska liðinu í leiknum en ekki því spænska.



Það reiddi því marga Liverpool menn til reiði að sjá þessa tvær knattspyrnugoðsagnir fagna óförum Liverpool í Meistaradeildinni en með þriðja markinu þá urðu vonir Liverpool um sæti í úrslitaleiknum nánast að engu.  

Lineker og Ferdinand fögnuðu markinu gríðarlega í blaðamannastúkunni. Stuðningsmenn Liverpool gátu vel trúað því upp á gamla Manchester United manninn Rio Ferdinand að hann myndi fagna óförum Liverpool en voru sárari út í Gary Lineker.

Hér fyrir neðan má sjá þessi viðbrögð þeirra félaga við marki Lionel Messi.





Markið var stórkostlegt og enn eitt dæmið um snilld Messi inn á knattspyrnuvellinum. Það er líka ekkert óeðlilegt við að hrífast með en Lineker og Ferdinand fögnuðu hins vegar markinu aftur á móti eins og íslensku fjölmiðlamennirnir fögnuðu sigri Íslands á Englandi í blaðamannastúkunni í Nice á EM í Frakklandi 2016.

„Það lítur út fyrir að ég hafi komið nokkrum stuðningsmönnum Liverpool í uppnám með því að fagna mikilleika í gær,“ skrifaði Gary Lineker á Twitter.

„Ég sem fyrrum leikmaður Barcelona mun þó ekki biðjast afsökunar,“ bætti Lineker við en færslu hans má sjá hér fyrir neðan.





Það eru þó ekki allir stuðningsmenn Liverpool sem eru reiður út í Gary Lineker og sumum fannst alveg eðlilegt að fyrrum leikmaður Barcelona fagnaði svona stórkostlegu marki. Það er ekki á hverjum degi sem leikmenn skora beint úr aukaspyrnu af um 32 metra færi í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Það breytir þó ekki því að margir hraunuðu yfir Lineker á samfélagsmiðlum og þessi fyrrum markakóngur HM þarf kannski að fara varlega í kringum stuðningsmenn Liverpool á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×