Origi hetja Liverpool á St. James' Park

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Origi skorar sigurmarkið.
Origi skorar sigurmarkið. vísir/getty
Liverpool er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir dramatískan 2-3 sigur á Newcastle United á St. James' Park í kvöld. Divock Origi skoraði sigurmark Liverpool þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Liverpool er með tveggja stiga forskot á toppi deildarinnar. Manchester City getur endurheimt toppsætið með sigri á Leicester City á mánudagskvöldið.

Ljóst er að það ræðst í lokaumferðinni hvort Liverpool eða City verður Englandsmeistari. Þá mætir Liverpool Wolves á meðan City og Brighton eigast við.

Virgil van Dijk kom Liverpool yfir á 13. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Trents Alexander-Arnold í netið.

Sjö mínútum síðar jafnaði Christian Atsu metin. Á 28. mínútu kom Mohamed Salah Liverpool í 1-2 sem voru hálfleikstölur.

Salomón Rondón jafnaði metin góðu vinstri fótar skoti á 54. mínútu. Þetta var tíunda deildarmark hans á tímabilinu.

Á 73. mínútu kom Origi inn á fyrir meiddan Salah. Hann þakkaði traustið með því að skora sigurmark Liverpool á 86. mínútu. Hann skoraði einnig sigurmark Liverpool gegn Everton á elleftu stundu fyrr á tímabilinu en Belginn hefur reynst Rauða hernum gríðarlega dýrmætur í vetur.

Liverpool fær Barcelona í heimsókn í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn. Börsungar unnu fyrri leikinn með þremur mörkum gegn engu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira