Enski boltinn

Klopp: Þetta eru örlög

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Klopp faðmar Virgil van Dijk sem skoraði fyrsta mark Liverpool gegn Newcastle.
Klopp faðmar Virgil van Dijk sem skoraði fyrsta mark Liverpool gegn Newcastle. vísir/getty
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, kvaðst stoltur af sínum mönnum eftir sigurinn á Newcastle United, 2-3, á St. James' Park í kvöld. Með sigrinum komst Liverpool á topp ensku úrvalsdeildarinnar.

„Það er erfitt að eiga við Newcastle. Við gátum ekki varist sóknaraðgerðum þeirra og það hélt þeim inni í leiknum,“ sagði Klopp.

„Við spiluðum stórkostlegan fótbolta á köflum og hefðum átt að vera búnir að klára leikinn áður en þeir skoruðu annað markið sitt. En það sem drengirnir gerðu var ótrúlegt. Þetta var frábært og fyllilega sanngjarnt. Þetta var erfiður leikur gegn liði sem er líkamlega sterkara en við. Ég gæti ekki verið stoltari.“

Ljóst er að það ræðst í lokaumferðinni um næstu helgi hvort Liverpool eða Manchester City verður Englandsmeistari.

„Ég var rólegur því þetta eru örlög. Strákarnir gerðu allt sem þeir gátu og þú verður bara að reyna og vera ákveðinn. Newcastle lögðu allt í leikinn en við fengum þrjú stig og úrslitin ráðast í lokaumferðinni,“ sagði Klopp.

„Við höfum spilað af krafti allt tímabilið. Við erum ekki besta lið í heimi og verðum að leggja okkur fram. Það eru engir auðveldir leikir og núna eru margir leikir á skömmum tíma. Þetta er erfitt en ég sá ekki taugaveiklun hjá einum einasta leikmanni. Við leystum þetta vel.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×