Enski boltinn

Klopp ræddi Messi: Af hverju gerðir þú þetta?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og Lionel Messi eftir fyrri leikinn.
Jürgen Klopp og Lionel Messi eftir fyrri leikinn. Getty/Andrew Powell
Lionel Messi var örlagavaldur Liverpool í fyrri leik Barcelona og Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar en tvö mörk hans undir lok fyrri leiksins á Nývangi gerði verkefni Liverpool á Anfield nánast ómögulegt.

Barcelona vann 3-0 og Liverpool þarf því að skora fjögur mörk í kvöld til þess að komast áfram í úrslitaleikinn á móti annaðhvort Ajax eða Tottenham.

Messi hafði heppnina með sér í fyrra marki sínu en í því síðara sýndi hann snilli sína með því að skora frábær mark beint úr aukapyrnu af um 32 metra færi.

Liverpool tekur á móti Barcelona klukkan 19.00 í kvöld en leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitunin hefst klukkan 18.30.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var spurður út í Lionel Messi á blaðamannafundi fyrir leikinn og þá sérstaklega út í það hvað hann sagði við argentínska snillinginn í leikslok á Nývangi.





Klopp faðmaði Messi í leikslok og margir vildu fá að vita hvað fór þeim á milli.

„Þú talaðir við Messi eftir leikinn í Barcelona. Ég var að velta því fyrir mér hvað þú sagði við hann,“ spurði einn blaðamaður á fundunum.

„Ég veit ekki hvað ég sagði við hann eða hvort ég sagði eitthvað,“ svaraði Jürgen Klopp sem var léttur á því eins og oft áður.

Hann sagði að auðvitað gæti fólk farið að fylla í eyðurnar og ímyndað sér hvað hann sagði við Lionel Messi á þessum tímapunkti.





Hann grínaðist síðan aðeins með það sem hann gæti hafa sagt við Messi:

„Af hverju gerðir þú þetta?,“ sagði Klopp í léttum tón en tók það síðan strax fram að hann hefði ekki sagt neitt við Argentínumanninn.

Klopp fór ekkert út í það hvað Liverpool ætlaði að gera til að stoppa Lionel Messi heldur talaði bara almennt um markmið liðsins.

„Það lítur út fyrir að við þurfum að spila fullkominn leik til að vinna þá og við munum reyna það. Tökum eitt skref fyrir í einu,“ sagði Klopp.

„Við þurfum að búa til rétta andrúmsloftið og nýta okkur það. Við þurfum að halda upp á þessa stund með góðum fótbolta. Þetta á að vera fótbolta partý. Við drekkum ekki áfengi á meðan leik stendur og gleðjumst því frekar með góðum fótbolta,“ sagði Klopp.

Jürgen Klopp og Lionel Messi.Getty/Chris Brunskill



Fleiri fréttir

Sjá meira


×