Erlent

Meina fyrrverandi lögfræðingi Hvíta hússins að starfa með þingmönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci
Donald McGahn, fyrrverandi yfirlögfræðingur Hvíta hússins, ætlar ekki að afhenda þingmönnum skjöl frá starfstíma hans fyrir forsetaembættið, þó honum hafi verið stefnt af þingmönnum. McGahn lýsti því yfir í dag og vísaði hann í skipun frá Hvíta húsinu um að hann ætti ekki að verða við fundarboðum þingmanna Demókrataflokksins í dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Þingnefnd sem rannsakar ásakanir um að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar, hafði boðað McGahn á fund sinn og sömuleiðis gert honum að afhenda skjöl frá starfstíma hans í Hvíta húsinu. Samkvæmt Politico var búist við því að honum myndu berast stefnur í dag.



„Nefndin ætlar að þvinga McGahn til að afhenda skjöl sem framkvæmdavaldið hefur skipað honum að afhenda ekki,“ skrifaði William Burck, lögmaður McGahn, í bréf til nefndarinnar í dag. Hann sagði að vegna andstæðra krafa tveggja valdsviða yfirvalda Bandaríkjanna, myndi McGahn ekkert aðhafast fyrr en forsetaembættið og þingið hafi komist að samkomulagi.

Fyrirskipun Hvíta hússins er sögð snúast eingöngu að skjölum og mun ekki koma í veg fyrir að McGahn svari spurningum þingmanna þann 21. maí, eins til stendur, samkvæmt heimildum Politico.

Trump hefur þó lýst því yfir að hann vilji ekki að McGahn svari spurningum þingmanna.

Hvíta húsið verst með kjafti og klóm

Blaðamenn Washington Post segja nefndinni einnig hafa borist bréf frá Pat A. Cipollone, núverandi yfirlögfræðingi Hvíta hússins, þar sem hann segir McGahn ekki eiga rétt á því að afhenda umrædd skjöl. Einungis Hvíta húsið geti það og því þurfi nefndin að krefjast skjalanna af Hvíta húsinu.



Cipollone gefur þó sterklega í skyn að Hvíta húsið myndi ekki afhenda skjölin. Starfsmenn Trump vinna nú hörðum höndum að því að hægja á hinum ýmsu rannsóknum þingmanna Demókrataflokksins gagnvart Trump.

„Hvíta húsið afhenti McGahn gögnin vegna samstarfs hans við rannsókn sérstaks rannsakenda Dómsmálaráðuneytisins og þá með þeim skilningi að forsetaembættið hafi áfram umsjón með gögnunum,“ segir í bréfi Cipollone, samkvæmt Washington Post. Þá sagði hann umrædd skjöl hljóta verndar vegna stjórnarskrár Bandaríkjanna og því þyrfti framkvæmdavaldið ekki að afhenda þau.

McGahn var mikilvægt vitni í rannsókn Robert Mueller, Rússarannsókninni svokölluðu, og lýsti hann tilvikum þar sem Trump skipaði honum að reka Mueller úr starfi sínu og binda enda á rannsóknina.

Sjá einnig: Skýrslan lýsir tilraunum Trump til að skaða rannsóknina



Mitch McConnell, leiðtogir Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta, tjáði sig um Rússarannsóknina í dag og sagði að málinu ætti nú að vera lokið. Niðurstöðurnar væru komnar í hús. Hann gerði lítið úr fólki sem batt vonir við að rannsókn Mueller myndi finna samsæri á milli framboðs Trump og yfirvalda í Rússlandi varðandi afskipti Rússa af forsetakosningunum 2016 og sagði að svo hefði greinilega ekki verið.



Sjá einnig: Fjöldi samskipta við Rússa en ekki nægilegar sannanir fyrir glæpum



McConnell gerði einnig lítið úr Demókrötum og sagði þá ganga í gegnum sorgarferli vegna málsins.

Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, sagði McConnel hafa reynt að framkvæma ótrúlegan hvítþvott á niðurstöðum Mueller og stöðu mála.


Tengdar fréttir

Alríkissaksóknarar segja hægt að ákæra Trump ef hann væri ekki forseti

Tæplega fjögur hundruð fyrrverandi alríkissaksóknarar, sem hafa unnið undir ríkisstjórnum bæði Repúblikanaflokksins og Demókrata, segja það fullvíst að Donald Trump hefði verið ákærður fyrir að hindra framgang réttvísinnar, á grundvelli Rússarannsóknarinnar svokölluðu, ef hann væri ekki forseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×