Erlent

Lögmaður Bandaríkjaforseta hefur afplánun fangelsisdóms

Kjartan Kjartansson skrifar
Cohen þegar hann yfirgaf heimili sitt í New York í morgun.
Cohen þegar hann yfirgaf heimili sitt í New York í morgun. AP/Kevin Hagen

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur afplánun á þriggja ára fangelsisdómi í New York í dag. Þegar hann yfirgaf heimili sitt í morgun sagði hann fréttamönnum að enn væri margt ósagt um málefni forsetans og að hann hlakkaði til að geta „deilt sannleikanum“ með þeim.

Fangelsisdómurinn sem Cohen hlaut var fyrir brot á kosningalögum þegar hann sá um að greiða tveimur konum sem sögðust hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump til að þegja um það og fyrir að ljúga að Bandaríkjaþingi.

Cohen verður fangelsaður í alríkisfangelsi í Otisville í New York og segir Reuters-fréttastofan að búist sé við því að hann verði vistaður í lágmarksöryggisdeild þar. Hegði hann sér vel í steininum gæti refsing hans verið stytt um 15%.

Lögmaðurinn var um árabil einn tryggasti málsvari Trump og hefur Cohen verið lýst sem „reddara“ forsetans. Í kekki kastaðist á milli þeirra eftir að alríkislögreglan FBI gerði húsleit á skrifstofu Cohen, íbúð hans og hótelherbergi í apríl í fyrra. Þremur mánuðum síðar sagðist Cohen opinberlega ætla að setja fjölskyldu sínar og föðurland ofar forsetanum. Hann vann með saksóknurum í New York á rannsóknum á Trump.

Í vitnisburði fyrir þingnefnd í febrúar lýsti Cohen fyrrum vinnuveitanda sínum sem rasista, svikahrappi og svindlara. Í dag sagði hann fréttamönnum að hann vonaðist til þess að þegar hann losnaði úr fangelsi yrðu Bandaríkin laus við „útlendingaandúð, óréttlæti og lygar við stjórnvölinn“.


Tengdar fréttir

Varaði þingmenn við að fylgja Trump í blindni

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, sakaði hann um að hafa brotið lög sem forseti á maraþonfundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings sem stóð í rúma sjö tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.