Íslenski boltinn

Dalvík/Reynir sló Þór úr bikarnum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Dalvík/Reynir fór upp úr þriðju deildinni síðasta haust. Í dag slógu þeir út lið sem var í toppbaráttu í Inkassodeildinni allt síðasta sumar.
Dalvík/Reynir fór upp úr þriðju deildinni síðasta haust. Í dag slógu þeir út lið sem var í toppbaráttu í Inkassodeildinni allt síðasta sumar. mynd/dalvík/reynir
Dalvík/Reynir gerði sér lítið fyrir og sló nágranna sína í Þór út úr Mjólkurbikar karla. Fjárðabyggð og Vestri tryggðu sér sæti í 32-liða úrslitunum.

Dalvík/Reynir, sem spilar í annari deild, gerði sér ferð í Bogann á Akureyri og mætti Inkassodeildarliði Þórs.

Þórsarar áttu fyrsta orðið þegar Jónas Björgvin Sigurbergsson skoraði á 17. mínútu. Gestirnir voru hins vegar ekki lengi að jafna metin, Pálmi Heiðmann Birgisson gerði það fjórum mínútum seinna.

Orri Sigurjónsson sá til þess að Þór fór með forystu inn í hálfleikinn með marki á síðustu mínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfleik jafnaði Númi Kárason aftur fyrir Dalvíkurmenn og það var svo Borja Lopez Laguna sem tryggði gestunum sigurinn, lokatölur 3-2 fyrir Dalvík/Reyni.

Fyrir austan mættust Höttur/Huginn og Fjarðabyggð á Fellavelli. Fjarðabyggð spilar í annari deild en Höttur/Huginn í þeirri þriðju.

Það stefndi allt í framlengingu eftir markalausan leik en Guðjón Máni Magnússon vildi ekki spila lengur og í uppbótartíma seinni hálfleiks setti hann tvö mörk og tryggði Fjarðabyggð 2-0 sigur.

Vestri varð þriðja annarar deildar liðið í dag til þess að tryggja sig áfram í næstu umferð með 3-1 sigri á Kára.

Páll Sindri Einarsson kom Vestra á bragðið á 18. mínútu og Pétur Bjarnason bætti tveimur mörkum við áður en flautað var til hálfleiks. Í seinni hálfleik minnkaði Andri Júlíusson muninn fyrir Kára með marki úr vítaspyrnu en nær komust gestirnir ekki og 3-1 sigur Vestra raunin.

Magni lenti ekki í vandræðum með KF og vann öruggan 4-0 sigur.

Aðeins einn leikur er eftir í 2. umferð Mjólkurbikarsins, það er viðureign Völsungs og Tindastóls sem fer fram á Húsavíkurvelli á miðvikudag.

Dregið verður í 32-liða úrslitin í næstu viku.

Úrslit og upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×