Chelsea missteig sig gegn Burnley

Sarri sendur upp í stúku.
Sarri sendur upp í stúku. vísir/getty
Chelsea náði einungis jafntefli gegn Burnley á heimavelli í kvöld er liðin skildu jöfn 2-2. Öll fjögur mörk leiksins komu í fyrri hálfleik.

Það voru gestirnir sem komust yfir strax á áttundu mínútu leiksins. Boltinn barst til Jeff Hendrick fyrir utan teiginn sem þrumaði boltanum í netið.

Einungis fjórum mínútum síðar var staðan orðinn jöfn. Eftir frábæran undirbúning Eden Hazard þá jafnaði N’Golo Kanté metin með flottu vinstri fótar skoti.

Á fjórtándu mínútu komust Chelsea svo yfir en Gonzalo HIguain skoraði þá loksins, loksins eftir mikla markaþurrð. Markið kom eftir glæsilegt samspil.

Gestirnir frá Burnley voru ekki af baki dottnir. Þeir jöfnuðu metin á 24. mínútu. Eftir aukaspyrnu barst boltinn til Ashley Barnes sem kláraði færið vel. 2-2 eftir 24 mínútur og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Chelsea gerði allt hvað þeir gátu til þess að skora sigurmarkið í síðari hálfleik en allt kom fyrir ekki. Maurizio Sarri, stjóri Chelsea, var svo vísað af bekknum með rautt spjald undir lokin.

Úrslitin gera það að verkum að Chelsea er í fjórða sæti deildarinnar með 67 stig en hafa leikið einum leik fleira en Arsenal og Manchester United sem eru í sætunum fyrir neðan þá.

Burnley er hins vegar í 15. sætinu með 40 stig sem fer langleiðina með að tryggja þeim sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Cardiff á tölfræðilega möguleika að ná Burnley en það verður að teljast afar, afar hæpið.

Jóhann Berg Guðmundsson var ónotaður varamaður hjá Burnley.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira