Erlent

Nýi írski lýð­veldis­herinn tekur á­byrgð á drápinu á Lyru McKee

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Lyra McKee var aðeins 29 ára þegar hún lést.
Lyra McKee var aðeins 29 ára þegar hún lést. vísir/getty

Nýi írski lýðveldisherinn hefur tekið ábyrgðina á drápinu á blaðakonunni Lyru McKee sem var skotin í höfuðið á fimmtudaginn var þegar hún var að fylgjast með óeirðum í hverfi í norður-írsku borginni Londonderry.

McKee var 29 gömul og lát hennar hefur vakið mikla reiði meðal almennings á Norður-Írlandi.

Í yfirlýsingu sem Nýi írski lýðveldisherinn sendi frá sér eru aðstandendur McKee beðnir innilegrar afsökunar á því að hún hafi látið lífið.

Um slysaskot hafi verið að ræða en byssumaðurinn hafi ætlað að skjóta að lögreglumönnum sem tókust á við mótmælendur í óeirðunum.

Þá kenna samtökin lögreglu um að hafa ögrað mótmælendum á staðnum til að efna til óeirðanna sem á eftir komu.

Nýi írski lýðveldisherinn var stofnaður árið 2012 og samanstendur af meðlimum írska lýðveldishersins sem ekki voru sáttir við friðarsamkomulagið sem gert var á Norður-Írlandi á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×