Erlent

Sjónarhorn Christchurch útsendingarinnar plataði ritskoðunarkerfi Facebook

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta kom fram á fundi eins af yfirmönnum Facebook með þingmönnum í Bretlandi í morgun.
Þetta kom fram á fundi eins af yfirmönnum Facebook með þingmönnum í Bretlandi í morgun. EPA/LUONG THAI LINH

Sjálfvirkt ritstjórnarkerfi Facebook átti erfitt með að skilgreina beinu útsendinguna af árásinni í Christchurch í Nýja-Sjálandi vegna fyrstu persónu sjónarhorns myndbandsins. Myndband sem þetta hafði aldrei birst áður á Facebook og því gat kerfið sem finna á myndbönd sem innihalda ofbeldi og jafnvel sjálfsvíg og eyða þeim, ekki skilgreint Christchurch myndbandið almennilega.

Árásarmaðurinn birti myndbandið í beinni útsendingu á Facebook með myndavél sem hann var með á höfði sínu á meðan hann skaut minnst 50 manns til bana í tveimur moskum í Christchurch. Facebook hefur verið gagnrýnt fyrir hve lengi myndbandið var á Facebook og þegar það var fjarlægt hafði því verið dreift víða um internetið. Í kjölfar árásinnar eyddi ritstjórnarkerfið minnst einni og hálfri milljón myndbanda af árásinni af Facebook á einum sólarhring.

Þetta kom fram á fundi eins af yfirmönnum Facebook með þingmönnum í Bretlandi í morgun. Um er að ræða nefndarfund þar sem hatursglæpur voru til umræðu og voru fulltrúar frá Twitter og Alphabet, sem á Google og Youtube, einnig á fundinum.

Fyrirtæki þessi hafa öll unnið að þróun gervigreindar sem finna á efni eins og nefnt er hér að ofan og fjarlægja það.

Samkvæmt umfjöllun Bloomberg, sem var með blaðamann á fundinum, sagði einn þingmaður Verkamannaflokksins að honum virtist ritstjórnarkerfi þeirra ekki virka og lýsti hann miðlum fyrirtækjanna sem rotþróm.

„Manni finnst eins og fyrirtækjum ykkar sé skítsama. Þið gefið frá ykkur mikinn áróður en grípið ekki til aðgerða,“ sagði Stephen Doughty. Marco Pancini frá YouTube svaraði Doughty og sagði fyrirtækin þurfa að standa sig betur og þau væru að standa sig betur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.