Íslenski boltinn

Óli Jóh: FH er með þrjá landsliðsmenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, segir að FH muni veita sínum mönnum harða samkeppni um Íslandsmeistaratitilinn í sumar.

„FH-liðið er frábært og eitt það best skipaða í deildinni,“ sagði Ólafur er Hörður Magnússon spurði hann álits á Hafnarfjarðarliðinu í upphitunarþætti Pepsi Max-markanna í gær.

„Auðvitað erum við betri en þeir. Ég get ekki sagt annað. En FH-liðið er vel mannað og betra en í fyrra. FH er með þrjá landsliðsmenn. Mér sýnist að FH-liðið sé betra en undanfarin ár,“ sagði Ólafur en nafni hans, Kristjánsson, þjálfari FH, var með honum í settinu.

Þótt þrír færeyskir landsliðsmenn séu í liði FH er Valur með tvo byrjunarliðsmenn úr íslenska landsliðinu innan sinna raða. Ólafur, þjálfari FH, hrósaði Val fyrir hvernig staðið væri að málum á Hlíðarenda.

„Valur er með frábært lið og ég vil hrósa Valsmönnum fyrir hvernig þeir hafa tæklað hlutina á undanförnum árum. Að rísa upp og ná þessum árangri sem þeir hafa náð. Þeir eru í forystusætinu og við hinir þurfum að elta þá,“ sagði Ólafur.

„Það er frábært að hafa svona félag sem setur markið hátt. Við þurfum að spýta í lófana til að standast þeim snúning. En það er hægt og ég held að margir reyni að bíta í hælana á þeim í sumar.“

Valur tekur á móti Víkingi R. í upphafsleik Pepsi Max-deildarinnar í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. FH fær hins vegar nýliða HK í heimsókn klukkan 16:00 á morgun. Fyrsta umferðin verður svo gerð upp í Pepsi Max-mörkunum á Stöð 2 Sport klukkan 21:15 á sunnudaginn.

Valur og FH mætast svo í stórleik 32-liða úrslita Mjólkurbikarsins í næsta mánuði.

Innslagið úr Pepsi Max-mörkunum í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Val spáð Íslandsmeistaratitlinum

Valsmenn verða Íslandsmeistarar ef hin árlega spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liðanna í Pepsi Max-deild karla rætist.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.